Hreinsun skolps

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:43:35 (7723)

2004-05-05 18:43:35# 130. lþ. 110.15 fundur 804. mál: #A hreinsun skolps# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. hvers vegna gerðar eru sömu kröfur, samkvæmt reglugerð umhvrh. nr. 798/1999, um hlutfall lífrænna efna sem hreinsa á úr skolpi, annars vegar frá Reykjavík, þar sem mengun er mikil, og hins vegar frá minni sveitarfélögum, t.d. Skagaströnd, þar sem íbúar eru fáir og mengun er lítil. Í reglugerðinni kemur fram að hreinsa eigi a.m.k. 20% af lífrænum efnum úr skolpi viðkomandi sveitarfélags áður en því er veitt í sjóinn.

Þessi regla stenst ekki neina skynsemi þar sem hún heimilar 100 þúsund manna borg að veita í sjóinn sem svarar til þess sem kemur óhreinsað frá 80 þúsund manns á sama tíma og hún skyldar lítið sveitarfélag, t.d. 500 manna sveitarfélag, til að hreinsa úr skolpinu það sem svarar til þess sem 100 manns láta frá sér af lífrænum efnum. Með öðrum orðum: Þar sem margir búa, svo sem 100 þúsund manns, er heimilt að veita allt að 80 þúsund einingum af lífrænum efnum út í umhverfið en þar sem fáir búa er ekki heimilt að setja 500 einingar af lífrænum efnum út í umhverfið.

Ég hefði talið að ef vel ætti að vera þá ætti að meta hvað viðkomandi staður þolir mikla mengun af lífrænum efnum, t.d. 10 þúsund einingar. Þá væri allt það sem væri umfram þol viðtakans hreinsað. Auðvitað er fáránlegt að ætla sér að hreinsa í burtu 20% af 500 einingum með ærnum kostnaði ef viðkomandi staður þolir allt að 10 þús. einingar.

Til að útskýra þessa reglu er ekki rétt að vísa á Evrópusambandið sem einhvern sökudólg í málinu. Reglur Evrópusambandsins eru mun sveigjanlegri og taka meira tillit til minni sveitarfélaga. Í 7. gr. tilskipunar Evrópusambandsins frá 21. maí 1991 kemur fram að ætlast sé til að skolp frá þéttbýlisstöðum með minna en 10 þúsund persónueiningum sé hreinsað með viðunandi hætti. Hvað merkir það að hreinsa skolp með viðunandi hætti? Það kemur fram í 2. gr. áðurnefndrar tilskipunar. Það getur verið mjög sveigjanlegt hvað telst viðunandi og fer alfarið eftir því hve viðkvæmur viðtakinn er.

Ljóst er að víða við sjávarbyggðir Íslands er viðtakinn mjög góður og þolir vel þau lífrænu efni sem veitt er út í hann. Allar líkur eru á að ef íslensku reglugerðinni væri breytt í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins þá þyrfti víða einungis að koma til grófhreinsun á skolpi við sjávarbyggðir landsins.