Veðurathugunarstöðvar

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:07:14 (7732)

2004-05-05 19:07:14# 130. lþ. 110.16 fundur 844. mál: #A veðurathugunarstöðvar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:07]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki endurskoða þetta ferli sem er komið í gang eins og hv. fyrirspyrjandi orðaði það. Ég hef fengið þessi mótmæli sem hv. þm. vitnaði líka til og las upp úr. Þau hef ég fengið. Það kom svo sem ekkert á óvart að skoðanir voru að hluta til skiptar hjá þeim sem málið varðaði. Við erum ekki óvön slíku, má segja.

Sú tillaga að leggja niður mannaða veðurstöð á Hveravöllum kemur frá Veðurstofunni sjálfri. (JBjarn: Til hvers? Vegna sparnaðar.) Það er til þess að hún geti mætt fjárlögum sínum. Hún hefur verið með halla á undanförnum árum, innibyggðan halla, og hún fékk reyndar svokallaða halaklippingu fyrir stuttu síðan. Hún hefur farið í gegnum mjög ítarlega skoðun hjá Ríkisendurskoðun þannig að það er mjög mikið búið að gera gott á Veðurstofunni og er ég bjartsýn fyrir hönd þeirrar stofnunar. Hún sem sagt gerir þessa tillögu sjálf og telur að hún sé réttmæt. Ég gerði ekki athugasemdir við þessa tillögu hennar til að halda sig innan fjárlaga. Það er auðvitað eðlilegt að stofnanir geri það. Við getum ekki horft fram hjá því að tækninni fleygir fram. Það getur ekki hv. þm. Jón Bjarnason gert frekar en aðrir. Í dag fær Veðurstofan upplýsingar frá 70 sjálfvirkum stöðvum, áður fyrr var engin, og hún fær upplýsingar frá 150 stöðvum sem bætast við það sem aðrir eiga, þ.e. það sem Vegagerðin rekur, Siglingastofnun og fleiri aðilar. Það eru 150 sjálfvirkar veðurstöðvar sem Veðurstofan fær upplýsingar frá og að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á þessar mönnuðu stöðvar. Þær upplýsingar verða ekki eins mikilvægar og þær voru áður fyrr. (Gripið fram í: En hvenær ...?)