Staða og afkoma barnafjölskyldna

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:09:37 (7733)

2004-05-05 19:09:37# 130. lþ. 110.17 fundur 692. mál: #A staða og afkoma barnafjölskyldna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram þá fyrirspurn til hæstv. félmrh. hvort stjórnvöld hafi kannað stöðu og afkomu barnafjölskyldna í samræmi við þál. um opinbera fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar sem var samþykkt á Alþingi í maí 1997, og ef svo er hverjar væru þá niðurstöðurnar og hvort stjórnvöld hefðu ráðist í aðgerðir á grundvelli könnunarinnar til að bæta stöðu barnafjölskyldna. Ályktunin sem Alþingi samþykkti átti sér tveggja ára aðdraganda og var arfur frá fyrri ríkisstjórn. Sú er hér stendur átti hlut að máli, enda verið áhugamanneskja um fjölskyldupólitík allar götur frá bæjarstjórnarárunum í Kópavogi þegar giftudrjúgt samstarf þriggja flokka vinstri meiri hluta leiddi af sér umsögnina um Kópavog sem félagsmálabæinn. Því var það ánægjulegt að fyrrverandi félmrh. Páll Pétursson skyldi bera þáltill. um opinbera fjölskyldustefnu fram svo til óbreytta nema hvað varðar fjölskyldusjóðinn.

Ég hef þó ætíð talið það grundvallarmistök að taka út úr tillögunni áform um fjölskyldusjóð því sjóðnum var ætlað að standa undir úttektum, könnunum og rannsóknum sem fjölskylduráðið m.a. teldi ástæðu til að gera og til að ljóst væri til hvaða aðgerða þyrfti að grípa væri á því áhugi. Sérstaklega hef ég talið mikilvægt að fjölskylduráð gæti á hverjum tíma kannað hvernig stjórnvaldsaðgerðir bitna á fjölskyldum og þá sérstaklega hvernig þær hitta ólíka fjölskylduhópa fyrir. Þess vegna harma ég að þetta ágæta tæki, fjölskyldusjóðurinn, skyldi ekki hljóta náð hjá þessari ríkisstjórn.

Ég hef á þessu vori, virðulegi forseti, borið fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. félmrh. um úttektir og aðgerðir í fjölskyldumálum. Það er gott að fá þau svör. Ég hef óskað eftir að svör við þremur fyrirspurnum væru skrifleg og mun að sjálfsögðu skoða mjög nákvæmlega hvernig staðan blasir við út frá þeim svörum. Í fljótu bragði finnst mér reyndar að ekki sé beint um stórátak í þessum málum að ræða. Á átta árum hefði verið unnt að gera svo miklu meira ef áhugi hefði verið fyrir hendi.

Þó vil ég sérstaklega nefna tvennt sem ég er mjög ánægð með, í fyrsta lagi að ILO-samþykkt nr. 156, sem er samþykkt frá Alþjóðavinnumálastofnuninni um að ekki megi segja upp fólki vegna fjölskylduábyrgðar, skyldi vera fullgilt og lögfest. Eftir því var búið að ganga frá árinu 1995. Svo er ég ánægð með hve virkt fjölskylduráðið virðist hafa verið þrátt fyrir að athafnafrelsi þess séu settar fjárhagslegar skorður. Svo eru líka hugmyndirnar um fjölskylduvogina nokkuð áhugaverðar og góðar.

Ég hlakka til að heyra svar hæstv. félmrh. og mun koma inn á það í síðari ræðu minni.