Brunatryggingar

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:44:08 (7746)

2004-05-05 19:44:08# 130. lþ. 110.22 fundur 953. mál: #A brunatryggingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er bruni sem varð í Bolungarvík í októbermánuði á sl. hausti. Atvik eru þau að eignin var brunatryggð fyrir 30 millj. kr. og um altjón var að ræða í brunanum. Það var hins vegar niðurstaða tryggingafélags að meta tjónið ekki á því verði sem brunabótamat kvað á um heldur á 6,4 millj. kr. Í lögum um brunatryggingar segir í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Vátryggingarfjárhæð húseignar skv. 1. mgr. 1. gr. skal nema fullu verði eignarinnar eftir virðingu. Fasteignamat ríkisins annast virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Heiti þeirrar gerðar er brunabótamat. Er markmið matsins að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fer fram. Skal matið taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geta af eldi og miðast við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti.``

Miðað við lagatextann virðist vera ljóst að brunabótamatið er mat á verðmæti eignarinnar á þeim tíma sem matið fer fram og miðað við aldur og ástand. Hins vegar er greinilegt af viðbrögðum tryggingafélagsins að það leggur annan skilning í það og því er borin fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskrh., með leyfi forseta:

Telur ráðherra að lög um brunatryggingar tryggi húseigendum bætur frá tryggingafélagi sem eru í samræmi við brunabótamat þegar um altjón er að ræða og síðan endurbyggingu hinnar tryggðu eignar?