Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:44:58 (7768)

2004-05-10 22:44:58# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að hér í þessum sal er enginn framsóknarmaður. (Gripið fram í: Svona er þetta alltaf.) Framsfl. hleypur í felur í þessu máli eins og svo mörgum öðrum þar sem hann hefur tekið á sig stóran part af oki Sjálfstfl.

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er að inna hæstv. forseta eftir því hvernig í ósköpunum sé hægt að taka þetta mál á dagskrá á morgun, eins og mér skilst að eigi að gera, þegar fyrir liggur að nefndir þingsins hafa ekki lokið lögskipaðri umfjöllun sinni um málið. Efh.- og viðskn. fékk málið til umsagnar frá allshn. og þeirri umfjöllun er ekki lokið. Þvert á móti varð niðurstaða nefndarinnar sú þegar hún lauk fundi sínum í dag að á morgun yrði aftur tekið til óspilltra málanna við að vinna málið. Við eigum eftir að fá fulltrúa til að skoða málið, þar á meðal var loforð frá meiri hlutanum um að við fengjum fulltrúa bankanna til að tjá sig um það vegna þess að áhöld eru um hvort þeir geti lánað til fyrirtækja sem þurfa að sæta þeim takmörkunum sem er að finna í frv. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann muni ekki sjá til þess að réttur okkar þingmanna til að sinna rannsókn málsins verði virtur.

Í annan stað spyr ég: Hvernig í ósköpunum má það vera, þegar við borð liggur að næstum því hver einasti hæstaréttarlögmaður sem hefur tjáð sig um málið, nema Jón Steinar Gunnlaugsson, telur að þetta tiltekna frv. kunni í ýmsum greinum að stangast á við stjórnarskrá og í mörgum greinum á við EES-rétt, að hæstv. forseti hlutast ekki til um það að þingið gangi úr skugga um hvort svo sé, ekki síst þegar við blasir að lögin eiga ekki að taka gildi, ef frv. verður samþykkt, fyrr en að loknum tveimur árum?