Dagskrá næsta þingfundar

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 23:22:13 (7790)

2004-05-10 23:22:13# 130. lþ. 111.94 fundur 544#B dagskrá næsta þingfundar# (um fundarstjórn), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[23:22]

Mörður Árnason:

Forseti. Mér er það mjög að skapi að spurningum sé svarað og er reiðubúinn að gera hlé á þessu máli mínu meðan forseti svarar spurningunni.

(Forseti (HBl): Hv. þm. er í ræðustól.)

Forseti vill ekki að ég geri hlé á ræðu minni til þess að hann geti svarað spurningum sem hér hafa verið margbornar fyrir hann?

Forseti. Í nefndaráliti því sem hér hefur m.a. orðið tilefni umræðu er minnst á nútímalýðræðisríki. (Gripið fram í: Ha?) Það er minnst á nútímalýðræðisríki (Gripið fram í: Hvar?) í 3. mgr. þessa nefndarálits. Síðasta orðið í 3. mgr. er nútímalýðræðisríki. (Gripið fram í: ... strika undir það.) Það mun vera uppfundning hinna staðföstu að setja það orð í nefndarálitið.

Nútímalýðræðisríki er einmitt eitt af því sem Íslendingar hafa tekið að sér ásamt Norðurlandamönnum öðrum, sérstaklega, að sýna Eystrasaltsþjóðum og öðrum þeim nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem hinn 1. maí sl. gengu í Evrópusambandið og tóku þar með sæti við hlið okkar í evrópskum félagsskap. Nú vill svo til að á morgun gengur hér í salinn forseti ungverska þingsins sem nýverið er aftur orðið að lýðræðisþingi. Það stóð a.m.k. til. Ég vil hvetja forseta til að íhuga hvort ástæða sé hugsanlega til að breyta þeirri dagskrá og hlífa forseta ungverska þingsins við því að ganga inn í Alþingi Íslendinga undir hans stjórn.

Það sem hér fer fram fer ekki fram í nútímalýðræðisríki og á ekki að vera til sýnis og eftirdæmis fyrir hinar nýfrjálsu þjóðir.