Skipan hæstaréttardómara

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 14:28:31 (7815)

2004-05-11 14:28:31# 130. lþ. 112.96 fundur 550#B skipan hæstaréttardómara# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. leggst svo lágt að ásaka mig, sem málshefjanda, um að hafa ekki kynnt mér málið. Ég treysti mér til að láta hæstv. forsrh. prófa mig í þessu áliti og fá hærri einkunn en hann fékk á lögfræðiprófi.

Herra forseti. Það sem skiptir mestu máli er að menn læri af mistökum sínum. Ég verð að segja að ég met það við hæstv. dómsmrh. að hann segir þó að hann sé reiðubúinn til að skoða þær ábendingar sem umboðsmaður Alþingis setur fram. Þetta er allt annar Björn en var í fjölmiðlum um daginn og talaði um álit umboðsmanns eins og þar væri um ræða fræðilega vangaveltur júrista úti í bæ. Nú er hæstv. dómsmrh. að læra lexíuna og guð láti gott á vita.

Við í Samf. erum þeirrar skoðunar að það eigi að breyta reglum og lögum um skipan hæstaréttardómara þannig að það verði ekki dómsmrh. heldur forsrh. hverju sinni sem tilnefnir og síðan komi sú tilnefning til umfjöllunar og staðfestingar á Alþingi þar sem tveir þriðju alþingismanna þurfa að staðfesta hana. Við teljum að með því takist það sem hæstv. dómsmrh. hefur ekki tekist, að skapa frið og sátt um Hæstarétt. Það skiptir miklu máli að hæstv. ráðherrar séu ekki stöðugt að draga hann inn í pólitískt skak eins og þeir hafa gert.

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er algerlega ósammála því þegar hæstv. ráðherra segir að hann hafi meira vit á því en Hæstiréttur hvers konar sérfræðiþekkingu réttinn skorti. Ég leyfi mér að vísa í álit umboðsmanns sem segir, með leyfi forseta, ,,að Hæstiréttur hafi betri yfirsýn og þekkingu á breytilegum þörfum réttarins á hverjum tíma heldur en ráðherra.`` Auðvitað er það þannig. Hins vegar kemur líka fram í áliti umboðsmanns að fyrir utan Evrópuréttinn verði hæstv. ráðherra líka á mistök við að rannsaka annað sem varðar sérþekkingu á réttarfari.

Herra forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi núna þegar hann fer til útlanda að taka álitið með sér og læra það utan að eins og ég. Svo skulum við sjá hvort við komumst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig eigi að breyta kerfinu.