Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:13:55 (7836)

2004-05-11 15:13:55# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við upphaf þingfundar í dag fórum við hv. þm. Mörður Árnason sem erum fulltrúar í menntmn. fyrir hönd Samf. þess á leit við forseta þingsins og formann menntmn. að nefndin yrði þegar kölluð saman til að vinna að áliti sínu um frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum. Nefndin kom í fyrsta sinn saman í gær þar sem henni var tilkynnt að óskað hefði verið eftir áliti frá allshn. um frv. frá nefndinni. Nefndin hefur ekki enn komið saman, hæstv. forseti, til að vinna að frv. eða fjalla um þann ...

(Forseti (GÁS): Forseti verður að vekja athygli hv. þingmanns á því að þetta lýtur ekki að fundarstjórn forseta á þessum fundi, heldur að störfum þingsins.)

Jú, ég ætla að óska eftir því að forseti kalli til formann nefndarinnar og að hann kalli nefndina þegar í stað saman þannig að hún geti farið að vinna að áliti sínu svo að hún geti skilað því og komið því að frv.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur hlýtt á þessa ósk hv. þingmanns en vill vekja athygli þingmanna á því að til er hér liður sem heitir störf þingsins og ber að taka upp í upphafi hvers fundar. Hér er annar liður sem um ræðir og lýtur að fundarstjórn forseta og tekur til annarra þátta. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns og annarra hv. þingmanna á því. Er það ekki ljóst?)

Ég þakka þá ábendingu, virðulegi forseti, og ítreka að ég er að ræða hérna um fundarstjórn forseta þar sem ég óska eftir því að ...

(Forseti (GÁS): Er henni ábótavant í einhverju?)

Nei, ég er að beina þeim tilmælum til forseta að hann kalli til formann menntmn. ...

(Forseti (GÁS): Forseti hefur þegar hlýtt á þessa ósk.)

Þá er henni komið til skila.