Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:39:23 (7871)

2004-05-11 18:39:23# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er athyglisvert að heyra þessa niðurstöðu af fundi forseta og formanna þingflokka. Ekki er hægt annað en harma að hæstv. forseti skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu, ásamt formönnum þingflokka Sjálfstfl. og Framsl., að verða ekki við ósk okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í menntmn. sem við bárum upp við virðulegan forseta fyrr í dag. Við tókum þá fram að við sæjum alls ekki hvernig þingheimi væri stætt á að halda áfram efnislegri umræðu um jafnviðamikið mál þegar ekki hefðu enn borist upplýsingar og faglegt mat þeirrar nefndar sem málið varðar kannski fyrst og fremst, hv. menntmn. Þótt við getum ekki annað en beygt okkur undir þá niðurstöðu sem greint var frá rétt í þessu af hæstv. forseta og hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, þá hljótum við að bera fram þá ósk til þess fundar sem fram fer eftir kvöldmatinn, milli forseta og formanna þingflokka, að menn taki þetta að nýju upp, virði ósk okkar til fullnustu og gefi nefndunum færi á því að koma saman.

Heppilegast hefði náttúrlega verið að gera hlé á þingfundi, virðulegi forseti, strax í dag þegar þessi ósk kom fram. Þannig hefðu fagnefndirnar sem hér um ræðir, menntmn., efh.- og viðskn. og jafnvel samgn., haft tíma í dag til að vinna í málinu, kalla til sín gesti, fara vel og vandlega yfir málið og sinna því lögbundna skylduverkefni sínu að skila ítarlegu, vönduðu og yfirveguðu áliti nefndanna um þetta grundvallarmál og eitt það stærsta átakamál, virðulegi forseti, sem upp hefur komið í íslensku samfélagi um nokkurra ára skeið. Því er ekki hægt annað en óska eftir því við virðulegan forseta, varðandi þann fund sem halda á í kvöld, að menn taki málið upp, hæstv. forseti og formenn þingflokkanna, taki þessar niðurstöður og endurskoði. Við höfum engin rök heyrt fyrir því að 2. umr. um frv. forsrh. um eignarhald á fjölmiðlum geti farið fram og átt sér stað hafi menntmn. ekki skilað áliti sínu um það. Það má eiginlega segja að málið sé ekki svo mikið sem hálfkarað í umræðunum. Menn hafa rætt um litla anga málsins. Meginþættir málsins hafa ekki komið inn sem þingskjöl þar sem menntmn. hefur ekki enn þá hafið störf við málið. Þó er 2. umr. komin af stað og hefur staðið um skeið. Þetta er með ólíkindum, hæstv. forseti.