Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:48:46 (7904)

2004-05-11 22:48:46# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Þetta er nú skemmtilegt, frú forseti. Hér höfum við verið að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem láta ekki sjá sig og eru ekki til svara, en stjórnarliðar grípa til þess í vörn sinni að leggja spurningar fyrir okkur og taka okkur upp. Ég held út af fyrir sig að ég þurfi ekki að bæta miklu við það sem ég hef áður sagt og sjónarmið mín eins og ég hef lýst þeim í þessu máli liggja ágætlega fyrir. Ég ætla ekki að láta taka mig upp í prófi í því hvort eignarhaldið eins og það er nákvæmlega núna sé þannig að við teljum að það eigi að vera svo um ár og aldir. Ég minnist þess þó að í fyrstu ræðu minni sagði ég að að óbreyttum lögum væri ekkert sem kæmi endilega í veg fyrir að fyrirtækið Árvakur keypti Norðurljós á morgun eða öfugt og menn gætu staðið frammi fyrir þeirri spurningu: Telja menn það í lagi? Ég hugsa að mörgum mundi nú bregða í brún þannig að við getum líka rætt málið út frá því að kannski er áfram ástæða til að skoða einhver mörk í þessum efnum, ekki endilega með það í huga að brjóta upp núverandi ástand. Auk þess skiptir auðvitað öllu máli, ef menn að fara að hugleiða slíkt, hvernig það er gert, hvaða aðlögun menn fá (Forseti hringir.) að þeim breytingum o.s.frv., að komið sé fram við menn eins og menn en fótunum ekki kippt undan þeim eins og til stendur.