2004-05-12 00:14:18# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:14]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að málið sem er hér á dagskrá, um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum, þessir tveir málaflokkar heyra eðlilega undir starfsnefndir þingsins, annars vegar menntmn. og hins vegar efh.- og viðskn. Nú er það svo að nefndin sem málið varðar kannski ekki neitt, allshn., er búin að skila áliti.

(Forseti (BÁ): Hyggst hv. þm. tala um fundarstjórn forseta?)

Já. Ég vil benda á að því var lofað við afgreiðslu málsins við 1. umr. eða að ekki yrði lagst gegn því að málið færi til efh.- og viðskn. og menntmn. Þær nefndir hafa ekki enn skilað áliti þannig að málið er enn þá til meðferðar í þeim nefndum. Þó að fallist hafi verið á að málið yrði reifað á þinginu í nokkurn tíma var alls ekki ætlast til þess að umræðu yrði lokið áður en nefndirnar hefðu skilað áliti. Og eina dagskráin sem liggur fyrir er að þessar nefndir koma saman kl. 8.15 á morgun til þess einmitt að ræða málið og reyna að koma með nál. um málið sem hér er á dagskrá og þá finnst mér alveg einboðið að þingið og hæstv. forseti standi við þau loforð sem hér voru gefin um að nál. bæði efh.- og viðskn. og menntmn. komi inn við 2. umr. um málið. Ég tel því alveg einboðið að til þess að geta uppfyllt þessi fyrirheit sem þingið gaf eigi hæstv. forseti að fresta fundi núna og bíða uns álit efh.- og viðskn. og álit hv. menntmn. liggja fyrir þannig að atriði sem snerta málið geti komið inn í þessa umræðu. Annað er bara fullkomin ósvinna í störfum og eiginlega eiga mál ekki að vera til meðferðar í þinginu á meðan þau eru enn þá með formlegum hætti í umfjöllun nefnda á vegum þingsins samkvæmt beiðni þingsins. Hér er því á vissan hátt verið að fara á svig og hálfpartinn að fremja þingsafglöp ef því heldur áfram sem horfir.