2004-05-12 00:32:54# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:32]

Helgi Hjörvar (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í þessari fyrstu ræðu minni um fundarstjórn forseta í kvöld verð ég að segja að mér finnst hryggilegt að sjá ungan þingmann, hæstv. 6. varaforseta Alþingis, Birgi Ármannsson, ganga hér svo að segja í björgin á Alþingi, inn í þau fornaldarvinnubrögð og þá ótrúlegu starfshætti sem maður hefur þurft að fylgjast með árum saman utan frá þó til þessa. Oft og einatt hefur maður undrast það vinnulag sem hér hefur verið, þá næturfundi og þau sérkennilegu vinnubrögð og óvönduðu vinnubrögð við lagasetningu á vorin og bundið vonir við að nýjar kynslóðir og nýir þingmenn mundu nú beita sér fyrir því að breyta hér nokkuð verklagi. En hæstv. forseti virðist ekki vera á þeim buxunum.

Það er rétt, virðulegur forseti, að vekja athygli yðar á því að nú er árið 2004 þó það hafi e.t.v. farið fram hjá hæstv. forseta og það er ekki þannig, virðulegur forseti, að við sem hér erum höfum komið ríðandi til þings. Það er ekki þannig að hér kalli sauðburður á það að við vinnum hér nótt eftir nótt sleitulaust til að rubba af málum til að komast aftur heim í sveitina. Það er ekki þannig, virðulegur forseti. Hér starfar venjulegt nútímafólk, fjölskyldufólk sem hefur ýmsum skyldum að gegna og vill skipuleggja vinnu sína og vinna að verkum sínum vel og vandlega. Það er algjörlega fráleitt að neita hér um stutt fundarhlé til þess að formenn þingflokka geti rætt við forseta þingsins um skipulag vinnu sinnar. Það er algerlega óboðlegt.

Hæstv. forseti hefur sagt að hann sjái ekkert því að vanbúnaði að hér haldi ræðuhöld áfram. Ég verð að vekja athygli hæstv. forseta á því að á því kynnu að vera vanhöld því það vill nú þannig til að næsti þingmaður á mælendaskránni er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Það er rétt að vekja athygli hæstv. forseta á því að í stórmálum hefur sá hv. þm. talað mest í tíu og hálfa klukkustund um eitt einstakt mál í einni einstakri ræðu. (BjörgvS: Nú verður metið slegið.) Ef hv. þm. tekur til máls með einhverja slíka ræðu þá erum við að horfa á fundartíma til klukkan ellefu á morgun, hæstv. forseti. Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt, svo við þurfum ekki að ræða hér fundarstjórn forseta klukkutímum saman í nótt eftir hverja ræðu, að gert verði stutt hlé þannig að menn nái að bera saman bækur sínar og komast að samkomulagi um einhverja skikkanlega vinnutilhögum því það er auðvitað þannig að ef hæstv. forseti hefði sýnt af sér rögg og, ég vil leyfa mér að segja, manndóm til að gera stutt hlé þá væri fundi forseta og formanna þingflokka löngu lokið. (Forseti hringir.) Hér á eftir að flytja hverja ræðuna á fætur annarri um fundarstjórn forseta vegna þessarar stirfni hæstv. forseta.