2004-05-12 00:36:19# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:36]

Einar Karl Haraldsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúinn til þess að kveðja mér hljóðs hér og ræða um fundarstjórn forseta. Það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum beiðni um að gert verði hlé fyrir þingflokksformenn og forseta þingsins til þess að ræða hvernig þinghaldinu skuli fram haldið í nótt. Það sætir nokkrum tíðindum að ekki skuli vera hægt að verða við slíkri sjálfsagðri ósk enda er það mjög sérkennilegt að þessi þingfundur sem staðið hefur þegar mjög lengi skuli eiga að standa fram í nóttina að því er virðist með 20 mönnum eða fleiri á mælendaskrá og þegar þingið sjálft hefur sett nefndarfundi snemma í fyrramálið þar sem á að ræða mikilsverð mál er tengjast því máli sem nú er til meginumræðu í 2. umr.

Ekki verður séð hvaða nauð rekur til þess að haga þinghaldinu með þessum hætti. Eins og menn vita er ekkert ákveðið hvenær þingi lýkur í vor. Hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa lýst því yfir að þeir muni ekki fara heim frá þessu þingi fyrr en botn er kominn í skattaloforð ríkisstjórnarflokkanna og lögð hafa verið fram einhvers konar fyrirheit eða frumvörp um þau mál. Því virðast stjórnarliðar tilbúnir að sitja hér fram á sumar. Þess vegna er ekki nokkur boðleg skýring á því að það liggi slík ósköp á að koma því máli sem hér er til umræðu fram á næturfundum. Það ætti að vera hægt að ljúka því máli með eðlilegum hætti og með skikkanlegu þinghaldi þannig að menn þurfi ekki að standa hér í brotum á lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum ofan á allt annað sem er vafasamt í þinghaldinu um þessar mundir.

Eins og komið hefur fram má vænta þess að það gæti stirðleika í allri framkvæmd þinghaldsins ef ekki er neitt samkomulag um hvernig vinna skuli. Þess vegna er það ósk mín eins og annarra til forseta að hann íhugi þetta mál sem hér hefur verið fram borið mjög vel.