2004-05-12 00:46:19# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:46]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst forseti alls ekki íhuga stöðu sína nógu grannt. Hann svarar ekki beiðnum sem til hans er beint um að fresta fundi svo skipuleggja megi störf þessa fundar í nótt.

Málið sem er hér til umræðu, gildistaka frv. ef að lögum verður er 1. júní árið 2006. Hefur forseti velt því fyrir sér hvaða ár er núna? Maður veltir því hreinlega fyrir sér hvort hann hafi villst um tvö ár í hugleiðingum sínum um hvernig eigi að stýra þessum fundi. Í gamla frumvarpinu, fyrstu drögunum, var gert ráð fyrir 1. júní 2004. Ég er ekki alveg viss um hvort forseti átti sig á því að komið hafa fram breytingartillögur og eiga kannski eftir að koma fleiri. Samkvæmt þeirri sem nú liggur fyrir er gildistakan 1. júní 2006. Ef við eigum að ræða þetta mál þangað til 1. júní 2006 þá er ágætt að við förum bara að búa okkur undir það.

Einhver var að tala um að þingmenn væru ekki bundnir yfir sauðburði. Ég held það væri betra að hæstv. forseti færi og kynnti sér vinnulag í sauðburði. Þar verða menn yfirleitt að hvílast því annars missa þeir lömbin. Þar þykir ekki búmannlegt að vaka úr sér glóruna. Einhver var að vorkenna framsóknarmönnum í þeim efnum hér áðan við umræðuna, að þeir mættu ekki við því að týna glórunni. Ég skora því á hæstv. forseta að kíkja á tímatalið hjá sér og átta sig á því að nú er árið 2004 og að frv. sem við erum að ræða, verði það einhvern tímann að lögum sem ég hef reyndar enga trú á, tekur ekki gildi fyrr en 1. júní 2006. Það eru tvö ár þangað til.