2004-05-12 00:55:42# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:55]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Ég er orðinn nokkuð þreyttur á að fá aldrei svör við þeim spurningum sem ég beini til forseta um hvernig málum er háttað með nefndastörf á Alþingi. Ég hef að ég held spurt í fjórgang. Eina svarið sem ég hef fengið barst í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, hljóðvarps. Þar svaraði hæstv. forsrh. Í þinghaldi síðustu daga virðast þeir fara hvor í annars líki, forseti þingsins og forsætisráðherra og skipta um hlutverk. Réttara sagt er það þannig að forsætisráðherra hleypur inn í eyður, eins og það heitir á knattspyrnumáli, sem myndast hjá forseta þingsins þegar hann er fjarri vettvangi eða hefur ekki mikla þóknun á því að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Hæstv. forsrh. sagði að það væri þannig á Alþingi og hefði verið lengi, af því að hann hefur verið hér svo lengi, að ef nefndir fengju mál til umsagnar þá skipti engu máli hvort þær gæfu álit sitt eða ekki, það skipti engu máli og allt væri meira eða minna grín og glens sem hér færi fram. Spurningum um þingsköp og slíkt var fréttamaðurinn náttúrlega ekki svo ókurteis að beina að honum.

Ég hef ekki enn þá fengið svör við spurningum og enn hefur aukist við þann spurningalista. Þar bætist við spurningin um hvernig fari saman þingfundir og nefndarfundir, annars vegar það sem segir í þingsköpum um að nefndarfundir skuli ekki fara fram á þingtíma og hins vegar, forseti, það hvernig greiða eigi fyrir því að menn geti undirbúið sig fyrir nefndarfundi.

Ég hef lesið 53. gr. þingskapa og af því að ég er vanur því að eitt skuli yfir alla ganga hlýt ég að beina þremur spurningum til forseta sem ég bið hann að svara. Fyrst vil ég þó lesa, með hans leyfi, fyrri hluta 53. gr. Hún er svona:

,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.``

Spurningarnar eru: Er fyrirspurnatími núna? Ef ekki, af hverju eru ekki allir þingmenn mættir? Í þriðja lagi spyr ég: Hvaða þingmenn eru á forfallalista hjá forseta að þessu sinni?