2004-05-12 01:01:03# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[25:01]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. ,,Sjaldan bregður mey vana sínum``, segir máltækið. Hæstv. forseti er hér óbilgjarn eins og hann hefur oft verið. Það er hlutverk hans að stýra þinghaldinu og reyna að gera það með sóma. Hann hefur ekki viljað tala við menn eða koma á hreint hvernig þessum málum eigi að vera varið. Hann hitti formenn þingflokka, veit ég, einhvern tímann fyrir klukkan tólf og vildi þá ekkert gefa út um hvað væri fram undan. Hann á því aldeilis hlut í þeirri stífni sem hér er uppi. Menn hafa beðið um hlé á þingfundi á meðan fundurinn með hæstv. forseta færi fram og vegna stífni forseta hafa menn talað tímunum saman um fundarstjórn forseta í staðinn fyrir að halda þann fund.

Ég veit ekki betur en að það hafi verið algengt hér í gegnum tíðina, a.m.k. þann tíma sem ég hef verið á Alþingi, að gerð hafi verið stutt hlé á þingstörfum til þess einmitt að þingflokksformenn gætu rætt við hæstv. forseta um framhald þinghaldsins. Hvað er að því? Nei, þá vilja menn heldur hafa áframhaldandi þóf og hleypa stífni og leiðindum í þinghaldið frekar en að reyna að koma einhverju samkomulagi á sem í raun og veru á ekki að vera af öðru tagi en því að forseti taki eðlilega ákvörðun um framhald þinghaldsins, þ.e. hvenær eigi að ljúka fundi. Það á ekki að vera neitt samningsatriði af hálfu stjórnarandstöðunnar um það. Hæstv. forseti á að hafa bein í sér til þess að ákveða það með þeim hætti að menn þurfi ekki að standa í endalausum mótmælum um hvernig þinghaldinu skuli fram haldið.

Það er margbúið að segja að hér eru þingmenn á mælendaskrá sem eiga að mæta til fundar í þingnefndum í fyrramálið og það er auðvitað fyrirsjáanlegt, og það þurfa menn bara að horfast í augu við og ef þeir gera það hljóta þeir að vera tilbúnir að ákveða að hætta hér störfum í nótt, að sá dagur, morgundagurinn, er búinn fyrir þeim. Það verður þannig að þessi nótt fer í þessa umræðu. Það eru 20 þingmenn á mælendaskrá, en það virðist enn þá vaka fyrir stjórnarliðinu að láta þessa umræðu deyja á komandi nóttu en það mun hún alls ekki gera. Það er tilgangslaust þvarg sem við stöndum nú í og mér finnst að menn eigi að ljúka því með að forseti lýsi því bara yfir að störfum verði hætt á eðlilegum eða viðsættanlegum tíma.