2004-05-12 01:12:21# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[25:12]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér varð litið á klukkuna sem er á veggnum fyrir ofan dyrnar og ég sé það núna að þetta þvarg hefur nú staðið í rúmar 70 mínútur, um það hvort þingheimur eigi að fá að fara heim að sofa í nótt eða ekki. Þetta er náttúrlega til vitnis um mikla sóun á tíma en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem maður verður vitni að því að tíma þingsins sé sólundað og þá um leið peningum því tíminn er svo sannarlega peningar á hinu háa Alþingi, það er ekki ókeypis að reka þingið.

Flest okkar hafa verið að störfum frá því klukkan níu í gærmorgun, í 15--16 tíma, og það er alveg rétt sem komið hefur fram að margir eru orðnir þreyttir. Dagurinn í gær var erfiður og nóttin virðist líka ætla að verða erfið en eins og fram hefur komið eru 20 manns á mælendaskrá. Ég veit að margir þeirra sem eru á mælendaskrá og bíða eftir því að fá að komast að ætla ekki að flytja stuttar ræður. Það eru langflestir stjórnarandstæðingar, fólk sem hefur undirbúið sig vel með litlum fyrirvara einmitt til að geta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu. Vonir standa til að hér geti farið fram lýðræðisleg umræða um mjög mikilvægt og vandasamt mál.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, að stjórnarliðar hafa að sjálfsögðu sýnt þinginu þá lítilsvirðingu að vera lítið við í dag. Hér hefur nánast vantað heilan þingflokk tímunum saman, þingflokk Framsfl. Þingflokkur Sjálfstfl. má eiga það að þar hefur mætingin verið örlítið betri, en hér hafa stjórnarandstöðuþingmenn setið vaktina af mikilli prýði og þeir gera það enn. Ég er alveg sannfærður um að þó það náist ekki í gegn að fólk fái að fara heim núna og hvíla sig í nokkra klukkutíma og þráðurinn verði síðan tekinn upp aftur á morgun, í fyrramálið klukkan hálfellefu eins og siðað fólk ætti náttúrlega að gera, þá efast ég ekki um að stjórnarandstaðan býr yfir þeim styrk að standa vaktina áfram. Hún mun gera það. Það er ég alveg sannfærður um. En það slær hins vegar ekki á móti því að það sé mjög sjálfsögð og eðlileg krafa að fólk sem er búið að vera í vinnunni í 16 klukkutíma fái smáhvíld.

Ég skil því ekki, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að gera hlé á þingfundi og ná samningum um að við förum heim núna, hvílum okkur og mætum síðan frísk og endurnærð í fyrramálið. Sum okkar þurfa að mæta eldsnemma, ég á t.d. sjálfur ásamt öðrum þingmanni að mæta í útvarpsviðtal klukkan hálfátta í fyrramálið.