2004-05-12 03:06:54# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:06]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn. höfum ítrekað leitað liðsinnis forseta þess efnis að vandséð sé hvernig 2. umr. um frv. um eignarhald á fjölmiðlum geti farið fram og haldið áfram án þess að menntmn. þingsins og efh.- og viðskn. hafi hafið og ég tala ekki um lokið störfum sínum við það álit sem allshn. óskaði eftir frá þeim í þessa umræðu. Með nákvæmlega sama hætti er erfitt, virðulegi forseti, að færa rök fyrir því að umræðan geti haldið áfram með vitlegum eða boðlegum hætti án þess að viðhorf Framsfl. og þingmanna hans komi fram með skýrum hætti í umræðunni. En fréttir bárust um það alla helgina út og suður, fram og til baka, að mikil ólga væri innan Framsfl. og því höfum við, virðulegi forseti, verið að óska liðsinnis forseta í því að Framsfl. gefist kostur og færi á að skýra viðhorf sín við þessa umræðu. Þær fréttir virðast á sandi byggðar og lítið að marka þær ef rétt er sem reynist að Framsfl. hafi nákvæmlega ekkert annað fram að færa í umræðuna en grafarþögnina eina og þar með stuðning sinn og liðsinni sitt við það frv. sem er til umræðu.

Virðulegi forseti. Það er því sanngirniskrafa okkar þingmanna á hendur hæstv. forseta að hann beiti alefli sínu og öllum krafti til að fá framsóknarmenn til að tjá sig með skýrum og afdráttarlausum hætti í umræðunni, en sú tóma og æpandi þögn sem umlukið hefur Framsfl. síðustu dagana hér í þinginu skelfir okkur mjög sem bíðum eftir viðhorfum hans og höfum litið mjög til þess að þingmenn hans tækju af skarið og gerðu það sem gefið var í skyn, að þeir væru andvígir þessum gjörningi, þeim ólögum sem á að setja á fjölmiðlana í landinu.

Því hljótum við að óska þess að virðulegur forseti beiti sér fyrir því að framsóknarmenn streymi upp í pontu hver af öðrum og geri skýra grein fyrir afstöðu sinni og flokksins í málinu. Það virðast hafa farið út einhver undarleg og villandi skilaboð þess efnis að einhverjir straumar í þingflokki Framsfl. væru andvígir frv. Aðeins einn þingmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sagðist við 1. umr. frv. og í fjölmiðlum ekki mundu styðja það en aðrir virðast ætla að ljá þessum dæmalausi gjörningi samþykki sitt með þeirri þögn sem ríkir í kringum Framsfl. enda hefur ekkert til hans spurst við þá löngu umræðu sem staðið hefur um frv. í dag.

(Forseti (BÁ): Forseti mun í samræmi við þingsköp una því að þingmenn geri þær athugasemdir við störf forseta sem þeir kjósa en forseti hefur engin áhrif á það hvort einstakir þingmenn eða þingflokkar tjái sig um þau mál sem eru til umræðu. Ég tel að slík ósk beinist ekki að fundarstjórn forseta þannig að ég tel að þingmenn geti notað ræðutíma sinn en ekki tímann til athugasemda um fundarstjórn forseta til að koma slíkum sjónarmiðum að.)