2004-05-12 03:17:27# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:17]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir þá, því miður að vísu, síðbúnu yfirlýsingu um að fundi ljúki ekki síðar en klukkan fjögur. Ég held að nota hefði mátt tímann talsvert betur í nótt ef menn hefðu séð að sér og sett fyrir eins og fjórum, fimm klukkustundum einhver tímamörk, einhver skynsamleg tímamörk og hefðu mátt vera sanngjarnari en það að menn eigi að hafa fjögurra eða innan við fjögurra tíma hlé þangað til þeir taka aftur til starfa. Það er þó gott þó seint sé að hæstv. forseti sér að sér og áttar sig á að auðvitað verður að fá einhvern botn í það hvernig menn standa hér að málum í nótt. Það þjónar engum tilgangi að þjösnast áfram í hið óendanlega því okkar bíður áframhaldandi starf á þinginu næstu daga og vinnulagið verður að vera með einhverjum skikkanlegum hætti.

Ég verð í öðru lagi líka að taka undir og fagna þeirri umhyggju sem menn sýna Framsfl. Það er auðvitað mikilvægt að einhverjir muni eftir honum. Ég tek alveg undir að það er ástæða til að hafa það sérstaklega í huga við skipulagningu þinghaldsins að framsóknarmönnum gefist kostur á að tjá sig og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þeir mega alls ekki verða af því sökum þreytu eða af öðrum ástæðum ef svo er. Þannig að mannfall þeirra af mælendaskránni og döpur viðvera í þingsölum er auðvitað sérstakt úrlausnarefni fyrir forustu þingsins, sem vonandi tekst að leysa vel úr á næstu dögum, enda líklegt að málið verði áfram nokkuð til umræðu og þá gefast mönnum góð tækifæri til að tjá hug sinn til þess í ítarlegu máli og einstökum atriðum.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég ítreka að mér finnst það slæmur svipur á þessari umræðu og hafa spillt fyrir henni að aðstandendur málsins, þ.e. hæstv. forsrh., flutningsmaður frv., og iðulega formaður allshn., eru ekki viðstaddir umræðuna. Það er ámælisvert. Ég tel það linku hjá hæstv. forsetum að sjá ekki til þess að þeir menn séu hér. Ef þetta er forgangsmál hæstv. ríkisstjórnar er lágmarkskrafa að hún torveldi ekki þingstörfin með því að láta ekki sjá sig í þingsölum og daufheyrast við réttmætum óskum um að vera hér til staðar og svara fyrir málið. Það liggur algerlega í hlutarins eðli að þingmenn eiga réttmæta kröfu á því að svo sé, það eru þinghefðir. Það er ekkert annað en aumingjadómur hjá forsetunum og linkind fyrir hönd þingsins og virðingar þess að sjá ekki til þess að það sé í lagi. Ég fer því fram á að á morgun þegar umræðunni heldur fram verði búið að tala ærlega við þessa höfðingja og þeim gert það ljóst að þeir eigi að vera hér og sinna þingskyldum sínum og svara fyrir sín mál, þannig að við þurfum ekki að eyða tíma í það á morgun eða í framhaldinu á næstu dögum að krefjast viðveru þeirra.