2004-05-12 03:20:44# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:20]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það ber að harma þá stífni sem hæstv. forseti hefur sýnt í þessu máli í nótt. Ég vil að það komi skýrt fram að það er mikill hiti og sannfæringarkraftur í þingmönnum stjórnarandstöðunnar í málinu og það er ljóst að við erum þess reiðubúin að tala hér eins lengi og við teljum nauðsynlegt til að koma þeim rökum sem hver og einn þingmaður telur sig búa yfir á framfæri í málinu. Ég tel að hæstv. forseti hafi í samskiptum sínum við stjórnarandstöðuna í nótt borið sand í gangvirki þingsins. Ég harma það. Ég hefði kosið að það væri hægt að vinda umræðunni fram með tiltölulega skikkanlegum hætti eins og siðaðir menn eiga að gera. Mér finnst það ekki siðaðra manna háttur að viðhafa þau vinnubrögð sem höfð hafa verið í frammi á þessari nóttu.

Ég tel það líka eðlilegt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að við þessa mikilvægu umræðu létu hæstv. ráðherrar sjá sig annað veifið. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að málið er á forræði allshn. og það er fyrst og fremst hv. þm. Bjarni Benediktsson sem þarf að svara fyrir það og hefur svo sem ekki á því staðið. Málið er flókið í eðli sínu og það er keyrt fram af óvanalegum þunga, en þingmönnum gefinn óvanalega lítill tími til að fara vel yfir það. Það er því ekkert að því að ósk komi fram um að hæstv. ráðherrar sem tengjast málinu séu a.m.k. við annað veifið. Það eru þrír ráðherrar sem málið varðar, hæstv. viðskrh., menntmrh. og að sjálfsögðu forsrh. Það er lágmarkskrafa að það sé aðgengi að því að varpa til þeirra spurningum. Málið og aðdragandi þess er þess eðlis.

Ég vil að það komi fram, herra forseti, að stjórnarandstaðan hefur óskað eftir því að á morgun verði þeim tveimur nefndum sem samkvæmt ákvörðun þingsins eiga að halda áfram vinnu í málinu, efh.- og viðskn. og menntmn., gefinn nægilegur tími til að ljúka yfirferð málsins. Það liggur fyrir að nokkrir gestir hafa verið kvaddir til fundar við menntmn. til þess að ræða málið. Sömuleiðis liggur fyrir að efh.- og viðskn. ætlar að fjalla um það.

Ég vil þess vegna óska eftir því við hæstv. forseta að hann lýsi því yfir hér til þess að greiða fyrir störfum þingsins að þessar nefndir fái nægan tíma til að vinna og ljúka yfirferð á morgun og ef þess þarf hefjist þing ekki aftur fyrr en kl. 13.30. Ég tel að það mundi bæta þau samskipti til nokkurra muna sem farið hafa úr skorðum í nótt, herra forseti.