2004-05-12 03:27:24# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:27]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég taka undir og þakka fyrir það að forseti sem nú stýrir fundi skuli vera búinn að taka þá ákvörðun að nú skuli menn fara að hvílast og fundur verði ekki nema til klukkan fjögur. Ég vil aðeins vekja athygli á því, virðulegi forseti, og ég er ekkert endilega að gagnrýna beint það fólk að það skuli vera farið, en fulltrúar í allshn., nokkrir stjórnarþingmenn eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, hv. þm. Jónína Bjartmarz, hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson voru fyrir nokkrum mínútum farin úr húsi samkvæmt skjámynd hér frammi, og ég tek það fram að ég er ekki að gagnrýna það. Þetta fólk er vafalaust orðið mjög þreytt og eðlilegt að það vilji fara að komast til hvílu. Það hefur mikið mætt á allshn. Það er svo með aðra þingmenn líka, sem hafa verið að sinna sínum störfum í nefndum og öðru og farið snemma upp í morgun og verið lengi að síðustu nætur, og það sé þá eðlilegt að taka tillit til þeirra.

Það er komið svar við spurningunni sem ég ætlaði að bera fram um hvenær eigi að byrja, en fundur hefur verið boðaður, ef ég hef heyrt rétt, kl. 10.30 í fyrramálið, sem er ekki samkvæmt ósk okkar um að nefndirnar tvær, hv. menntmn. og efh.- og viðskn., fengju að fara í rólegheitum og almennilega yfir málið og jafnvel skila af sér nefndarálitum og hefja fund klukkan hálftvö á morgun. Það hefði verið almennilegur bragur að slíkum tilkynningum sem hafa verið að smákoma fram. En vegna þess, virðulegi forseti, sem ég hef sagt um fjarveru nefndarmanna, eins og hv. þm. Bjarna Benediktssonar, sem þó hefur kannski manna best setið hér þingsalnum og hlustað með örfáum undantekningum, að það fólk sé farið af velli, þá fyndist mér myndarbragur á því að forseti mundi nú að lokum tilkynna okkur að við skyldum bara hætta strax og geyma þennan hálftíma til morgundagsins og þá ræðu sem á að hefjast hér á eftir, enda verður ekki, miðað við tilkynningu forseta, verið mínútu lengur en til fjögur. Meiri myndarbragur yrði nú að því, virðulegi forseti, og ég vil eindregið leggja það til.

Jafnframt vil ég geta þess, eins og hér hefur komið fram og ítrekað, að það eru fleiri stjórnarþingmenn sem eru orðnir þreyttir og eru farnir heim að leggja sig. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem átti að vera hér samkvæmt dagskránni þarnæsti ræðumaður, samkvæmt blaði sem skrifað var út um mælendaskrá ekki alls fyrir löngu, er líka farinn úr húsi og hefur tekið sig af mælendaskrá. Stjórnarliðið er orðið þreytt og ég skil það í raun og veru vel, bæði að þurfa að vera svona lengi og vera úti í bæ að reyna að verja þá vitleysu sem við erum hér að ræða um, fjölmiðlafrumvarpið. Það er eðlilegt að það taki á stjórnarþingmenn og þeir séu farnir heim að sofa.