2004-05-12 03:30:35# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjarn (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:30]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég upplifi það svo að hæstv. forseti þingsins geri sér ekki fyllilega grein fyrir hvert hlutverk hans sé við stjórn þingsins né heldur hvernig hann skuli starfa með forustumönnum þingflokka á þinginu. Í 8. gr. þingskapa Alþingis stendur, með leyfi forseta:

,,Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu.``

Síðar stendur:

,,Forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda, sbr. II. kafla.``

Þetta er hlutverk forseta.

Í greinargerð með handbók þingsins stendur um þingflokksformenn að forseta beri samkvæmt þingsköpum að hafa samráð við formenn þingflokka um skipulag þingstarfa og fyrirkomulag umræðna. Hann á ekki að vera bara með tilskipunarvald.

Eins og þessar umræður hafa þróast hér í dag þá tel ég að þetta birtist okkur þannig að ekki hafi verið mikið samráð heldur fullkomlegt tilskipunarvald. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, greindi hér frá því að hann hefði upplifað það svo að forseti þingsins hefði alveg eins getað verið fulltrúi stjórnarflokkanna og að ekki hefði verið hægt að sjá mun á honum og þingflokksformönnum þeirra sem voru að reka erindi flokka sinna. Forseti þingsins á að vera forseti allra þingmanna og gæta fyllsta jafnræðis. Hann á ekki bara að vera forseti stjórnarflokkanna hverju sinni.

Ég tel því að mikil þörf sé á því að hæstv. forseti kanni betur háttu sína í stjórn þingsins þannig að við séum ekki að upplifa það sem raun sannar. Hér erum við að ræða mál sem er enn í þingnefnd, mál sem er enn í meðförum þingnefndar sem Alþingi hefur falið að skila áliti um. Ég tel að þar sé forseti að fara á svig við þær skyldur sem honum ber að inna af hendi við góða og óaðfinnanlega verkstjórn.

Ég tel mjög nauðsynlegt að þessum fundi verði slitið núna. Ég bendi líka á að samkvæmt hefðbundinni dagskrá á að vera fyrirspurnadagur á morgun. Það liggur heldur ekki fyrir í sjálfu sér nein starfsáætlun fyrir næstu viku sem forseta ber að vinna í samráði við þingflokksformenn. Þessi stjórn af hálfu forseta þingsins fer því að mínu viti á svig við þingsköp.