2004-05-12 03:43:43# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:43]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Sá galli er á máli hv. síðasta ræðumanns að annars vegar er hann að skilgreina þær umræður sem farið hafa fram hér í kvöld og hins vegar er hann að lýsa því fyrir okkur að hann hafi alls ekki verið viðstaddur þær heldur verið á ýmsum fundum, verið af persónulegum ástæðum einhvers staðar úti í bæ og síðan í þeim ágætu veisluhöldum sem hér fóru fram samtíða þessum fundi. (Gripið fram í.) Hv. þm. hefur rekið hingað inn höfuð sitt einu sinni og séð (Gripið fram í.) hv. þingmann og hinn mikla skörung Jóhönnu Sigurðardóttur eina í ræðustól. Það er rétt að um skeið var Jóhanna Sigurðardóttir ein í ræðustól vegna þess að félagar hennar þurftu að ræða saman (Gripið fram í.) og höfðu þó Jóhönnu í öðru eyranu, þannig að það sé sagt.

Það er sérkennilegt hvað margir stjórnendur eru hér á þinginu. Það er forseti þingsins og það er stjórnandi þingsins sem við fréttum hér um áðan, það eru sex varaforsetar þingsins. Svo eru svona tveir sjálfboðaforsetar. Það eru formenn þingflokka stjórnarinnar sem koma hér upp og halda miklar prótókollræður og messa yfir öðrum þingmönnum um siði og venjur og hefðir sem þeir vita um betur en aðrir. Það virðist vera, forseti, einhver þrá hjá þessum mönnum að komast í forsetastólinn. Væri kannski ráð að við næstu úthlutun herfangs á þinginu yrði þessum tveimur látið eftir svo sem eins og 5. og 6. varaforsetadæmið og þeir losaðir við þessi erfiðu störf sín sem kvelja þá svona mikið þannig að þeir fái að stjórna í þinginu og halda með umboði ræður yfir okkur vesölum þingmönnum sem ekki kunnum, ekki getum og ekkert vitum.

Erindi mitt var það að nú er orðið ljóst að fundi verður slitið hér eftir um það bil 15 mínútur hafi ég skilið forseta rétt. Ég fagna þeirri ákvörðun hans og tel að hún sé góð þó fyrr hefði hún mátt koma. Ég vil hins vegar spyrja hann og ég bendi á 18. gr. þingskapa sem áður hefur komið hér við sögu í kvöld vegna þess að annar sjálfboðaforsetinn, hv. þm. Einar Guðfinnsson, tók upp mikla þingskapaumræðu sem hann rann nú á rassinn með að vísu undir eins vegna þess að hann þóttist kunna þingsköp meira en góðu hófi gegndi og gleymdi 18. gr. Meðan ég vísa í þessa 18. gr. vil ég að forseti geri mér ofurlitla grein fyrir því hvernig við tveir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd sem höfum verið við þessa umræðu eins og okkur er bæði rétt og skylt eigum að fara að því að vinna núna --- nú þurfum við að hvílast væntanlega til klukkan 8.15 með þeim tíma sem það tekur að koma sér þangað --- og hvernig við eigum svo að undirbúa nefndarálit okkar eða hvernig nefndin á að starfa, sú nefnd sem hv. þm. Gunnar I. Birgisson veitir forstöðu og forseti á að leiðbeina honum með í samræmi við 18. gr. þingskapa.