2004-05-12 03:50:24# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:50]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta ákveðinn misskilning sem fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar um viðveru í þinginu. Ég ætla að meiri hluti stjórnarandstöðunnar hafi verið við umræðuna í kvöld og í nótt þótt menn hafi ekki verið öllum stundum í þingsalnum. Hins vegar eru sárafáir stjórnarþingmenn á svæðinu.

Ég held að það kunni að hafa verið ómaklegt af hálfu okkar sumra að kenna þetta frv. eingöngu við hæstv. forsrh. eða jafnvel Sjálfstfl. því ég held að það sé rétt sem fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framfl., að ,,der skal to til``. Það þarf nefnilega Sjálfstfl. og Framsfl. saman, sem mynda meiri hluta í þinginu, til að þröngva þinginu til þeirra vinnubragða sem við erum að verða vitni að. Og það sem hv. þm. kallar málþóf eru tilraunir okkar í stjórnarandstöðunni til þess að tryggja að þetta mikilvæga þingmál fái faglega og vandaða umfjöllun.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstfl., sagði að stjórnarmeirihlutinn hefði lagt sig í líma við að finna leiðir til að fjalla um málin á vandaðan hátt og þá hefðu alltaf risið nýjar kröfur. Ég sit í efh.- og viðskn. þingsins sem fékk málið til umfjöllunar frá allshn. Ef ég man rétt fengum við málið í hendur á föstudegi og var gert að ljúka umfjöllun samdægurs. Við vildum leita álits hjá nokkrum stofnunum, Samkeppnisstofnun, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði, bönkum og öðrum aðilum en þeir tjáðu okkur að þeir þyrftu lengri tíma. Við fengum frest fram á mánudag. Þá komu þessir aðilar til fundar við okkur og kvörtuðu allir yfir tímaskorti. Út á það hefur málflutningur okkar gengið, að reyna að skapa þeim aðilum í þjóðfélaginu svigrúm sem vilja og eiga að varpa ljósi á þetta þingmál, þannig að við getum tekið einhverja vitiborna afstöðu til málsins. Út á það hefur hið meinta málþóf gengið, að skapa þinginu svigrúm til þess að fjalla á faglegan hátt um málið.