Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:15:18 (8077)

2004-05-13 10:15:18# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:15]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Mikil tíðindi hafa borist frá störfum efh.- og viðskn. í morgun sem þarf svo sem ekki að koma á óvart. Það vita allir sem vilja vita að frv. og allur málatilbúnaðurinn í kringum það ber keim af því að þetta sé bæði vanreifað og illa undirbúið á allan hátt.

Allir sem vilja sjá það sjá að allir mælar loga á rauðu í þessu máli. Þetta sjá allir sem vilja sjá það og mér er gersamlega fyrirmunað að skilja að ríkisstjórnarliðar sjái það ekki allir sem einn. Þetta er yfir höfuð vel gefið fólk. Mér býður reyndar í grun, hæstv. forseti, að sífellt fleiri stjórnarliðar séu einmitt farnir að sjá að þetta getur ekki gengið og að það þarf að gefa þessu máli miklu lengri tíma. Að sjálfsögðu eiga menn núna að staldra við og hætta þessari vitleysu, gefa þessu tíma í sumar og koma frekar með vandaðra og betra frv. í haust. Nú er tímabært að láta staðar numið, hætta að eyða dýrmætum tíma þingsins í þetta bölvaða kjaftæði, ef mér leiðist svo að segja. Þetta er gersamlega komið úr böndunum. Það er farið að rýra traust og trúverðugleika þingsins út á við. Það er búið að gjaldfella störf þingsins stórlega í augum þjóðarinnar með þessum sirkus sem hefur staðið yfir í heila viku.

Það er talað um tilraunalögfræði. Formaður efh.- og viðskn. segir að hér reyni menn að stunda einhverja tilraunalögfræði og viti ekki hvar þetta endar. Ég held að þetta frv. allt saman og allur málatilbúnaðurinn sé tilraunalögfræði --- og við vitum ekki hvar málið endar. Hér hafa verið stunduð tilraunaþingsköp á undanförnum dögum, tilraunaþingsköp. Þetta er allt í einhverju limbói, þetta er sirkus. Við verðum að hætta þessu.