Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:38:58 (8088)

2004-05-13 10:38:58# 130. lþ. 114.94 fundur 558#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), GAK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Sífellt fleiri rök koma fram um að það mál sem við erum að ræða hér, fjölmiðlafrumvarpið, einnig eftir að brtt. hafa komið frá meiri hlutanum, sé þannig úr garði gert að ástæða sé til að fresta afgreiðslu þess. Ég tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram, miðað við þær upplýsingar sem hafa komið frá því fólki sem starfar í efh.- og viðskn., um að þessum fundi verði frestað, okkur gefinn tími til að skoða fram komnar upplýsingar og að betur verði unnið að þessu máli. Það hlýtur líka að vera eðlilegt að menntmn. ljúki málsmeðferð sinni og að við fáum þær ábendingar sem áðan voru reifaðar í þessum ræðustól inn í þingið.

Úti í þjóðfélaginu vísa sífellt fleiri löglærðir aðilar til þess að frv., jafnvel í þeim búningi sem það er í nú, standist ekki stjórnarskrána. Það er mjög alvarlegt mál, hæstv. forseti, að við skulum vera í þeirri stöðu að vera að ræða hér mál sem margt bendir til að fari beint til dómstóla eftir að það verður afgreitt hér, þ.e. ef meiri hlutinn nær vilja sínum fram. Það er þinginu ekki til sóma að lenda enn einu sinni í því að koma hingað inn með frv. og síðan út með lög sem verða til þess að verk þingsins verða dæmd ómerk. Ég skora á hæstv. forseta að verða við þeim tilmælum sem hér hafa komið fram.