Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 15:10:13 (8105)

2004-05-13 15:10:13# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Það frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum, á sér mjög sérstæðan aðdraganda og feril í meðförum þingsins. Við höfum svo sannarlega fundið fyrir þeirri þróun sem verið hefur á undanförnum árum í stóraukinni fákeppni á flestum sviðum almannaþjónustunnar, fákeppni, einkavæðingu, skerðingu á samkeppni og mismunun á milli íbúa landsins til aðgengis þessarar grunnþjónustu. Ég mun síðar í ræðu minni koma inn á hvað hefur verið að gerast á bankamarkaðnum, matvörumarkaðnum, kjötmarkaðnum, fjarskiptamarkaðnum, í sjávarútveginum þar sem fiskveiðiheimildirnar eru að færast á örfárra manna hendur. Allt er þetta hluti af ákveðinni heild sem hefur verið keyrð markvisst af núverandi stjórnarflokkum, Sjálfstfl. og Framsfl., að færa auðlindir þjóðarinnar á fárra manna hendur, fá ráðstöfun þeirra í hendur örfárra manna, og færa það fjármagn sem þjóðin hefur aflað í gegnum aldirnar úr almannaeigu, úr almannaráðstöfun í ráðstöfun örfárra. Það er baksviðið sem er við frv. sem hér er til umræðu.

Fulltrúar fjögurra flokka á þinginu fluttu þáltill. á Alþingi í byrjun desember um að kanna starfsumgjörð fjölmiðla. Fyrsti flutningsmaður á þeirri þáltill. var hv. þm. og varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Álfheiður Ingadóttir, en aðrir flutningsmenn voru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Steingrímur J. Sigfússon. Sú þáltill. var kannski eins konar upphaf að þeim ferli sem síðan fór í gang þó svo að sá ferill tæki allt aðra stefnu en fyrrnefndir hv. þingmenn lögðu til í þeirri þáltill. sem mælt var fyrir á Alþingi 2. des. sl.

Þess vegna held ég að mikilvægt sé, frú forseti, að við áttum okkur á og rifjum upp hvað þarna var lagt til og síðan hvernig vikið hefur verið frá því með sorglega afdrifaríkum afleiðingum sem við sjáum ekki enn fyrir.

Í tillögunni stendur, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.``

Síðan eru talin upp nokkur atriði sem nefndin geti kannað sérstaklega, svo sem eins og hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila, hvort setja beri sérstök ákvæði í lög sem tryggi fullt gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum, hvort ástæða sé til að takmarka sérstaklega möguleika aðila til eignarhalds á fjölmiðlum sem eru markaðsráðandi eða mjög umsvifamiklir á öðrum sviðum viðskipta, og síðan að kanna löggjöf í nágrannalöndunum. Þung áhersla var lögð á eftirfarandi:

,,Nefndin skal í störfum sínum hafa samráð við Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, menntamálaráðuneytið og aðra aðila er málið varðar.``

Hér er lagt til, frú forseti, að þingið í heild, fulltrúar allra flokka komi að þessari vinnu og stýri henni og vinni hana. Það hefði verið farsælt ef þeirri leið hefði verið fylgt.

[15:15]

Í grg. með þessari þáltill. er áréttað, með leyfi forseta:

,,Fjölmiðlar eru ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar. Þeir hafa einnig undirstöðuhlutverki að gegna við að tryggja málfrelsi. Á fjölmiðlamarkaði þarf að ríkja fjölbreytni svo að almenningur fái upplýsingar úr ólíkum áttum. Mjög varhugavert er að of fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun samfélagsins. Slíkt skapar hættu á að ólíkum sjónarmiðum sé gert mishátt undir höfði og fjölmiðlarnir ræki ekki sem skyldi aðhalds- og gagnrýnishlutverk sitt. Fjölmiðlar verða að njóta frelsis og sjálfstæðis, vera fjölbreyttir að gerð og eiginleikum og óháðir hver öðrum til að öll framangreind markmið náist. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði er því afar varasöm. Einnig er nauðsynlegt að ætíð liggi ljóst fyrir hvernig eignarhaldi fjölmiðla er háttað.``

Áfram segir í grg. með sömu þáltill. frá 2. desember á síðasta ári:

,,Verkefni nefndarinnar sem hér er gerð tillaga um er að kanna starfsumgjörð fjölmiðla á Íslandi, hvert stefni í þeim efnum og hvort styrkja megi sjálfstæði þeirra, frelsi og fjölbreytni með lagaákvæðum eða öðrum hætti. Mikilvægt er að nefndin starfi í nánu samráði við hagsmunaaðila og hraði störfum sínum.``

Tillagan hlaut allmikla umræðu bæði í þinginu og utan þess þegar hún var lögð fram. Framkvæmdarvaldið gat ekki unað því að þingið tæki frumkvæði í málinu og þess vegna var það næsta sem gerðist í því að hæstv. menntmrh. skipaði sérstaka nefnd 19. des. árið 2003 til þess að skoða reglur um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi. Sú nefnd starfaði á ábyrgð stjórnarflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl., en ekki á ábyrgð þingsins.

Grundvallaratriðið sem lagt var upp með í þeirri þáltill. sem ég vitnaði til áðan var að þingið allt, fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna kæmu að vinnunni og henni voru í sjálfu sér ekki sett nein tímamörk en mikilvægt væri að hún væri unnin á þann hátt að sem flestir aðilar þjóðfélagsins gætu átt þar hlut að máli og komið sjónarmiðum að.

Framkvæmdarvaldið valdi að fara hina hörðu valdbeitingarleið og skipa nefnd á sínum vegum að frumkvæði menntmrh. og verkefni hennar var samkvæmt skipunarbréfinu sett mjög þröngt. Allt í einu er komið í ljós að framkvæmdarvaldið hefur bara áhuga á einum þætti fjölmiðlunarinnar, þ.e. hver fer með eignarhaldið. Nefndin er skipuð og tekur til starfa.

Sjálfsagt hefur vel tekist til með skipun manna í nefndina og þeir sem í henni störfuðu á vegum menntmrh. hafa greinilega, samkvæmt þeirri skýrslu sem þeir síðan lögðu fram, unnið mjög mikið og gott verk og ekki talið sig vera múlbundna af ríkisstjórnarvaldinu eða þeirri tilskipun sem erindisbréfið hljóðaði upp á. Það kemur fram í inngangi að skýrslu nefndarinnar að nefndarmenn geta þess sérstaklega að þeir hafi talið að skipunarbréfið frá menntmrn. hafi verið allt of þröngt markað varðandi störf nefndarinnar og þeir þess vegna vikið frá því. Með leyfi forseta, stendur einmitt í innganginum:

,,Samkvæmt orðalagi skipunarbréfsins er umboð nefndarinnar takmarkað við það að meta hvort tilefni sé til að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum. Setning beinna reglna um eignarhald í þröngum skilningi er þó aðeins ein þeirra leiða sem farnar hafa verið í öðrum löndum, til að vernda þá hagsmuni sem að framan eru raktir.`` --- Það er að segja um frjálsa og trausta og örugga stöðu fjölmiðla. --- ,,Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að hægt er að fara ýmsar aðrar leiðir til að ná sömu eða svipuðum markmiðum. Nefndin hefur því tekið þá afstöðu að eðlilegt sé að fjalla einnig um aðrar leiðir sem til greina koma en lagasetningu um eignarhaldið sem slíkt, enda kunni slíkar leiðir að einhverju eða öllu leyti að vera til þess fallnar að standa vörð um fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.``

Það er mjög athyglisvert, frú forseti, að nefndin sjálf rífur sig þannig úr þeim viðjum sem hún var sett í af framkvæmdarvaldinu og skoðar málið í mjög víðu samhengi og telur það skyldu sína og að hún geti í rauninni ekki sóma síns vegna og vinnu sinnar vegna unnið starfið öðruvísi en að fara þegar í stað út fyrir þau mörk sem menntmrh. eða framkvæmdarvaldið skipar.

Það hefði því átt að vera ríkisstjórninni nægileg lexía eða a.m.k. góð ábending um að hún væri á rangri leið í sínum ferli með því að binda sig svona alfarið bara við eignarhaldið þegar nefndin sjálf bendir á að það séu aðrar leiðir sem gætu fullt eins komið þar að gagni, að það sé a.m.k. mjög fávíst að ætla að binda sig bara við einn þátt.

Það hefur einnig komið fram í umræðunni um málið og er öllum ljóst að samtímis nefndarvinnunni er svo annar aðili, hæstv. forsrh., þegar farinn að skrifa texta að lögum. Þegar maður sér erindisbréf nefndarinnar, þ.e. að hún skuli bara taka á eignarhaldinu og engu öðru, liggur við að maður haldi að búið hafi verið að skrifa textann að þessu lagafrv. í megindráttum áður en nefndin fer að vinna. Að minnsta kosti er svo mikill samhljómur í því að ekki skuli tekið á öðrum þáttum en eignarhaldinu en ekkert á fjölmiðluninni sem slíkri.

Þetta eru auðvitað þekkt vinnubrögð, við þekkjum þessa vinnu ríkisstjórnarinnar í öðrum málum, t.d. ef við lítum til öryrkjamálsins, öryrkjadómsins, þar sem bréf og lagafrumvörp voru skrifuð áður en leitað hafði verið til þeirra aðila sem áttu að skrifa upp á bréfin og sama virðist vera hér upp á teningnum að frv. hafi verið skrifað áður en skýrsla nefndarinnar eða þau atriði sem hún benti á kæmu fram og ekkert tekið tillit til þess.

Það er því á allan hátt, alveg frá upphafi ferils málsins, beitt valdníðsluvinnubrögðum og ekki ætlunin að koma neitt að kjarna málsins eða þeim þáttum sem þurfti og ætlunin var að fjalla um, eins og lagt var til í þáltill. sem ég vísaði til áðan þar sem lögð var áhersla á að þingflokkarnir, Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðlar og samtök þeirra og aðrir aðilar í samfélaginu kæmu að vinnunni í upphafi og tækju fyrir alla þætti sem lytu að fjölmiðlun.

Sú skýrsla sem síðan var unnin er um margt mjög athyglisverð. Hún tekur til margra góðra þátta og þar leyfa menn sér meira að segja að velta fyrir sér stöðu Ríkisútvarpsins.

Það er reyndar athyglisvert að í allri þessari umfjöllun um fjölmiðla í þinginu og einnig af hálfu stjórnarliða og kemur skýrt fram í því frv. sem hér er lagt fram að menn eru alfarið og eingöngu uppteknir við eignarhaldsmálin. Menn ræða ekkert um hlutverk, menn ræða ekkert um skyldur og því síður að minnst sé á einhverjar samfélagslegar skyldur fjölmiðla, þjónustuskyldur eða samfélagsskyldur.

Í huga mínum og í huga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru upplýsingar sem fjölmiðlar gefa og hlutverk og skylda fjölmiðla mjög margþætt og einn af hornsteinum lýðræðisins sem lýðræðið byggir á og þeir eru einnig hluti af því almannaþjónustukerfi sem við viljum standa vörð um að allir landsmenn eigi jafnan og öruggan aðgang að á sönnum grundvelli. Það er aðeins í lögunum um Ríkisútvarpið sem er að finna einhverjar slíkar samfélagslegar skyldur sem taldar eru upp. Í lögum um Ríkisútvarpið er sagt, með leyfi forseta:

,,Hlutverk og staða Ríkisútvarpsins samkvæmt íslenskum lögum hefur mikla þýðingu fyrir efni þessarar greinargerðar og við mat á því hvort ástæða sé til að setja sérstakar reglur um eignarhald á fjölmiðlum í því skyni að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Skv. 1. gr. rúvl. annast Ríkisútvarpið útvarp í samræmi við ákvæði laganna og skv. 2. gr. rúvl. er Ríkisútvarpið sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins.``

Um hlutverk þess er sagt:

,,Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.``

Í 4. gr. laga um Ríkisútvarpið stendur, með leyfi forseta:

,,Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.``

Þarna er kveðið á um samfélagslegar skyldur Ríkisútvarpsins, að því beri að senda út og þjóna öllum landsmönnum.

Ég hefði í sjálfu sér talið að það hefði verið réttast að kanna fyrst hvernig Ríkisútvarpið gerir þetta eða hvernig því er gert fært að sinna þeim skyldum sínum að senda út til alls landsins og næstu miða hljóðvarpsdagskrá og eina sjónvarpsdagskrá. Nei, frú forseti, það er nefnilega fjarri því að svo sé enn, það er fjarri því að Ríkisútvarpinu sé gert mögulegt að standa undir þessum skyldum sem eru þó lagðar lögbundið á Ríkisútvarpið og Ríkisútvarpið vill í sjálfu sér standa við. Enn þá er ákveðinn hluti landsins og landsvæði sem ekki hafa aðgengi að dagskrám útvarpsins. Við þekkjum það að í stórum landshlutum er skipt sitt á hvað milli Rása 1 og 2 vegna þess að þær virðast ekki hafa útsendingarkraft, þannig að þeir sem eru að hlusta á Rás 1 í útvarpinu geta allt í einu fengið Rás 2 inn á útsendinguna.

Sjónvarp er ekki komið nærri því á alla byggða staði hér á landi, hvorki til lands né til sjávar. Það er fjarri því að því jafnrétti sem þegnarnir eiga rétt á að búa við varðandi þjónustu Ríkisútvarpsins sé enn þá fullnægt. Væri það ekki fyrsta krafan sem við ættum að gera hér þegar við fjöllum um stöðu, hlutverk og skyldur fjölmiðla að þeir nái þessum skyldum og þessum kvöðum? Ég hefði talið að það væri eitt af því fyrsta sem ætti að gera. En menn virðast láta sér það í léttu rúmi liggja og eru farnir út í aðra sálma.

[15:30]

Sú nefnd sem ráðherra skipaði, og vann í sjálfu sér ágætt verk þó svo að ríkisstjórnin hafi síðan ákveðið að taka ekki mikið mark á þeim tillögum sem hún lagði til, lagði einmitt áherslu á stöðu Ríkisútvarpsins og mikilvægi þess og benti á að einkareknar sjónvarpsstöðvar eða útvarpsstöðvar hefðu ekki talið sér skylt að axla í sjálfu sér neinar samfélagslegar kvaðir heldur hafi þær eftirlátið Ríkisútvarpinu það.

Mér hefði fundist það vera eitt af meginatriðunum sem leggja hefði átt upp í umræðunni að leggja þær samfélagslegu kvaðir á fjölmiðla, hvort heldur eru blöð, útvarp eða sjónvarp, sem komnir eru upp fyrir einhverja ákveðna markaðshlutdeild meðal þjóðarinnar og geta ekki beint flokkast undir að vera héraðsblað, héraðsútvarp eða héraðssjónvarp að þeir gerðu ekki upp á milli landsmanna eftir búsetu.

Það er t.d. alls ekki hægt að fallast á það að Fréttablaðið sé héraðsfréttablað Reykjavíkur eða nokkurra hverfa í Reykjavík. Það er hvorki hægt að fallast á það né að það sé héraðsfréttablað höfuðborgarsvæðisins og beri þess vegna ekki skyldur gagnvart landsmönnum öllum. Fréttablaðið er komið með slíka útbreiðslu að það er alveg eðlilegt og sjálfsagt að mínu mati að til þess væru gerðar samfélagslegar kvaðir og samfélagslegar skyldur.

Hvers vegna er þá sá munur gerður á borgurum landsins að Fréttablaðið er borið ókeypis í öll hús á höfuðborgarsvæðinu og á ákveðnum stærstu þéttbýlistöðum landsins en ekki svo á öðrum svæðum landsins? Mér finnst að þegar miðill er kominn með svo mikla útbreiðslu og er orðinn svo virkur í þjóðfélagsumræðunni að hann er farinn að hafa þar bæði áhrif og óbeina upplýsingaskyldu ættu líka að fylgja eftir í gegnum löggjafann með einum eða öðrum hætti samfélagslegar kvaðir á slíka fjölmiðla, þannig að ekki væri gerður munur á fólki eftir búsetu um að eiga jafnan aðgang að umræðunni sem þar fer fram.

Sama má segja um annað, eins og útvarp og sjónvarp. Þegar útvarpsrásir eða útvarpsstöðvar eru komnar með þá hlutdeild í hlustun að vera orðinn virkur aðili í þjóðfélagslegri umræðu finnst mér jafnframt að kanna eigi með hvaða hætti hægt er að gera þeim skylt að boðskapur þeirra eða sú umræða sem þær standa fyrir geti borist öllum landsmönnum. Það má svo velta því fyrir sér hvernig megi íþyngja þessum fyrirtækjum sjálfum með þeirri þjónustukvöð en þar finnst mér að ríkisvaldið eigi að vera ábyrgðaraðilinn gagnvart öllum íbúum landsins um að þessi mál verði þá í þeim farvegi að allir landsmenn sitji að mestu eða að öllu leyti við sama borð.

Hvaða réttlæti er í því að önnur aðalsjónvarpsstöðin sem komin er með umtalsverða hlutdeild á íslenskum markaði og er orðin mjög virk í þjóðfélagsumræðunni, einstaklingar í þjóðfélaginu koma þar fram og túlka skoðanir sínar og störf starfsmanna þessara miðla hafa orðið áhrif á og stýra þjóðfélagsumræðunni, er það í lagi út frá jafnræðisreglu að það sé bara hluti landsmanna sem eigi aðgang að þeirri umræðu? Er það forsvaranlegt? Hvaða frelsi og hvaða jafnrétti erum við að tryggja þar?

Mér finnst að í allri umræðunni um stöðu og hlutverk fjölmiðla sem hornsteinar lýðræðisins, hornsteinar lýðræðislegrar umræðu, hornsteinar fyrir þróun og velferð þjóðarinnar sem fjölmiðlarnir bera gríðarlega ábyrgð á og eru þátttakendur í að móta, eigi að horfa til þjóðarinnar allrar í þeim efnum. Við getum svo sem skilið að við gerum ekki sömu kröfur til einhverra afmarkaðra héraðsblaða. Reyndar er það svo að ríkisvaldið hefur í gegnum aðgerðir sínar, í gegnum einkavæðingu á pósti í áföngum, með því að taka hluta af skyldum póstsins og gera þær að markaðsvöru, orðið til þess að póstþjónusta fyrir héraðsfréttablöðin, sem geta ekki dreift sér með öðrum hætti en að kaupa póstþjónustu, hefur hækkað um mörg hundruð prósent og er að gera þeim ókleift að starfa með þeim hætti sem þau vildu og gera. Þessir héraðsfréttamiðlar eru líka gríðarlega þýðingarmiklir fyrir upplýsta, almenna fjölmiðlaumræðu.

Hér er því orðin veruleg mismunun á. Sú mismunun, frú forseti, sem gerð er á þegnum þjóðfélagsins eftir búsetu um aðgengi að þessari umræðu finnst mér hrópleg og er að mínu viti brot á öllum jafnræðisreglum og líka öllum þeim hugsjónum sem ég hélt að við flest hefðum um að við værum ein þjóð í landinu. Þennan þátt vil ég líka draga inn í umræðuna. Landið er stærra en bara þéttbýlissvæðið hér, en það er eins og umræðan snúist bara um það, um markaðshlutdeild og slag um ákveðinn markað á höfuðborgarsvæðinu, vissulega þar sem fjöldinn er mestur.

Verði sú þróun áfram eins og nú horfir til mun enn aukast gjáin milli landshluta, milli íbúa landsins í aðgengi að fjölmiðlum. Þess vegna finnst mér afar mikilvægt að í umræðunni um fjölmiðla verði settar á þá einhvers konar alþjónustukvaðir og settar á þá skyldur, upplýsingaskyldur, samfélagsskyldur við alla íbúa landsins. Á það er hvergi minnst, hvorki í skýrslunni sem hér liggur fyrir, þeirri ágætu skýrslu, annað en það sem fram kemur í umfjöllun um Ríkisútvarpið, né heldur í þessu frv. til breytinga á útvarpslögum.

Það er þó mjög athyglisvert og ánægjulegt til þess að vita a.m.k. eftir því sem ég les skýrslu þeirra ágætu manna sem unnu hana, hve þunga áherslu þeir leggja á sterkt ríkisútvarp. Þeir leggja þunga áherslu á að styrkja þurfi Ríkisútvarpið með öllum tiltækum ráðum til þess að tryggja umræðu og samkeppni hér á landi. Því er það frv. um fjölmiðla sem flutt er af formanni Sjálfstfl., þess flokks sem hefur hvað helst ályktað um að einkavæða Ríkisútvarpið, hlutafélagavæða það, selja frá því einstakar rásir, taka af því tekjustofna, breyta því og reyna að veikja það, þetta hefur verið grunntónn í ályktunum landsfundar Sjálfstfl. á undanförnum árum, ég tala nú ekki um ályktunum ýmissa undirstofnana eða stofnana og samtaka sem eru mjög tengdar Sjálfstfl. eins og Verslunarráðsins, sem leggst náttúrlega alfarið gegn frv. í umsögn sinni um það á þeim forsendum að það hefti markað, sé illa unnið og geti stangast á við stjórnsýslulög, en einn áherslupunktur Verslunarráðsins er mikilvægi þess að einkavæða og selja Ríkisútvarpið --- sá hugur sem liggur að baki þeirri vinnu sem hér er verið að leggja fram er öllum ljós. Því held ég að fyllileg ástæða sé til þess að vera á varðbergi gagnvart þeim tillögum sem sprottnar eru upp úr farvegi fjölmiðlaáhuga Sjálfstfl.

Herra forseti. Það er einnig fleira sem veldur vonbrigðum í þessu frv. til laga um breytingu á útvarpslögum og það er að í rauninni er hvergi tekið á hlutverki fjölmiðla sem slíkra. Hvergi er tekið á starfsháttum fjölmiðla eða hvort setja megi þeim einhver mörk. Í greinargerðinni eða skýrslu nefndarinnar sem hún skilaði telur hún upp ýmis atriði. Hún nefnir meira að segja að kostir vissrar samþjöppunar geti verið fyrir hendi. Við vitum að við búum í fámennu landi, stóru en fámennu landi. Til þess að reka öfluga fjölmiðla sem geta sinnt því hlutverki sem ég hef nefnt, að geta þjónað og tekið þátt í umræðunni á landsvísu þannig að allir landsmenn eigi sama aðgang að og einnig staðið fyrir bæði menningarlegri og gagnrýnni þjóðfélagsumræðu, þarf styrk og til þess þarf fjármagn. Þess vegna getum við ekki búist við að hér verði gríðarlegur eða ótiltekinn fjöldi fjölmiðla og fjölmiðlafyrirtækja sem geti starfað með eðlilegum hætti með þeim styrk sem hér er verið að tala um. Þess vegna verðum við að gera ráð fyrir að það séu möguleikar á ákveðinni samþjöppun hvað þetta varðar, því að ef við setjum reglur með þeim hætti að það geri öllum fjölmiðlum ófært að vinna, ef við setjum reglur með þeim hætti að þeir verði allir aumingjar munu þeir ekki geta þjónað því hlutverki og þeirri kröfu sem við gerum til þeirra. Ekki viljum við búa til eitthvert aumingjasamfélag í fjölmiðlaflóru Íslendinga, ekki trúi ég því. Kannski er það samt ætlunin.

Þess vegna verðum við að horfa til þess að við verðum að gefa ákveðið svigrúm, löggjafinn má ekki þrengja svo að að ekki sé hægt að búa til fjölmiðlafyrirtæki sem sé í sjálfu sér lífvænt, þó að jafnframt séu líka settar þær skorður að þjónustuhlutverk og rekstur fjölmiðlafyrirtækisins falli ekki í skuggann fyrir öðrum markmiðum sem geta staðið þar að baki. Við þurfum jafnframt að vera á móti því. Þess vegna eru einmitt raktir í skýrslunni kostir og þörf á vissri samþjöppun.

[15:45]

Menn velta því fyrir sér hvort samkeppnislög geti í sjálfu sér verið nægjanleg umgjörð utan um fjölmiðlamarkaðinn hér á landi. Vissulega geta þau verið það og að sjálfsögðu er mjög nauðsynlegt að hér ríki skýrar samkeppnisreglur og að Samkeppnisstofnun hafi tök á að fylgja þeim eftir. En ég er þannig gerður að ég hef ekki trú á að samkeppnislög og stór samkeppnisstofnun séu lausnin á öllum vanda í atvinnu- og þjónustulífi hér á landi. Í umræðunni um Samkeppnisstofnun fyrir nokkrum dögum síðan var einmitt verið að benda á að málum hefði fjölgað svo hjá Samkeppnisstofnun að fari svo fram sem horfir lendi hún í að vera nokkrum árum á eftir ef hún ætlar að afgreiða þau og að hún þurfi að fjölga fólki verulega, og ef það væri reiknað áfram nú að sá málafjöldi sem bærist til Samkeppnisstofnunar yxi með sama hætti á næstu 10--20 árum og hann hefur gert síðustu 10 ár væri stór hluti Íslendinga farinn að vinna hjá Samkeppnisstofnun í eftirliti. Ég hef ekki trú á að það sé lausnin.

Ég hef trú á því að við þurfum að setja almenn lög um fjölmiðla þar sem ekki aðeins séu afmörkuð starfsskilyrði þeirra heldur séu þeim líka settar þjónustuskyldur og þjónustukvaðir við alla landsmenn, að gerð sé til þeirra félagsleg og samfélagsleg krafa sem hvergi er minnst á í því lagafrv. sem hér er lagt fram, enda ekki við því að búast frá þeim flokkum sem eru að leggja til hliðar allt sem heitir samfélagsþjónusta og félagshyggja, það er eitur í beinum þeirra nema hjá kannski einum framsóknarmanni, einum þingmanni sem man eftir félagshyggju og samhjálp. Það er hvergi minnst á það.

Ég tel að þetta eigi að vera grunnstef til fjölmiðla eins og annarrar almannaþjónustu í landinu. Þetta ætti að koma skýrt inn og síðan ætti eignarhaldið að koma mjög skýrt fram, hverjir eigi þá fjölmiðla sem um er að ræða. Það ætti að vera þar alveg niður í hvern einstakan aðila, það ætti að vera fullkomlega og öllum ljóst og þess vegna birt reglulega hverjir séu persónulegir eigendur með beinum eða óbeinum hætti að viðkomandi fjölmiðli. Sú umræða sem varð hér fyrir nokkrum missirum um það þegar ekki fékkst uppgefið eignarhald á ákveðnum fjölmiðli var svo fáránleg og svo fáviskuleg af viðkomandi fjölmiðli því að enginn skaðaðist meira á því en viðkomandi fjölmiðill sjálfur. Það var hann sem beið mest tjón. En umræðan vísaði til þess hversu mikið gat var þarna á löggjöfinni, að hægt væri að komast upp með slíkt. Ég held að það sé númer eitt og sem við þurfum að hafa fullkomlega á hreinu því að þá vitum við þó nákvæmlega hverjir standa að baki viðkomandi fjölmiðils.

Einnig tel ég mjög mikilvægt að skýrt sé kveðið á um aðild eigenda eða að gerður sé eins traustur skilveggur og hægt er á milli eigenda og blaðstjórnar eða fjölmiðlastjórnar eða þeirra sem fara með dagleg mál og umræðu viðkomandi fjölmiðils þó að við vitum að sá veggur heldur aldrei. Við höfum heyrt talað um þessa veggi eða kínamúra eins og menn kalla það í höfuðið á Kínamúrnum. En það er líka hægt að labba uppi á múrnum og ég hef labbað uppi á Kínamúrnum, þannig að kínamúrar sem menn eru að monta sig af að setja innan fyrirtækjasviða, innan samsteypa, eru jú góðir og blessaðir og alveg sjálfsagt að setja þá. En það er líka hægt að labba uppi á þeim og horfa til beggja hliða og það er gert. Það gerði ég meira að segja á Kínamúrnum og geri mér þess vegna grein fyrir því og finnst þetta alveg fáránleg samlíking eða mjög sérstæð, kannski lýsandi samlíking þegar menn eru að tala um kínamúra í viðskiptum. (Gripið fram í: Svo hafa menn brotið niður Berlínarmúrinn.) Svo hafa menn brotið niður Berlínarmúrinn og það er líka hægt að gera, það geta verið sömu aðilar og byggðu hann upp. Það er líka hægt í fjölmiðlunum. En engu að síður er mjög mikilvægt að þetta sé skýrt.

Það er líka mjög mikilvægt að þau leyfi sem viðkomandi fær til að reka fjölmiðil séu bundin ákveðnum skilyrðum, þau séu þá bundin nafni viðkomandi, þau séu tengd nafni eða eigendum viðkomandi fyrirtækja þannig að verði breytingar á eignarhaldi geti viðkomandi leyfi þess vegna fallið niður og verði að endurnýjast. Það er mín skoðun að rétt væri að hafa það inni.

Í þessu máli eins og mörgum öðrum hjá okkar litlu þjóð, sem getur ekki trúað á að hin óhefta samkeppni leysi öll þau mál sem upp koma, þá er það grundvallaratriði að hér sé sterkt ríkisútvarp með skilgreindu hlutverki, skilgreindri stöðu, eins og reyndar er í núverandi lögum, og að um það verði staðinn vörður og sjálfstæði þess sé tryggt. Vegna þess að ef við erum með öflugan og sjálfstæðan ríkisfjölmiðil geta aðrir blómstrað eða starfað eftir atvikum þar við hliðina, en auðvitað er ekki um endalausan markað að ræða fyrir fjölmiðla á Íslandi.

Þetta er mjög hliðstæð umræða og við höfum tekið um önnur mál sem ég ætla aðeins að víkja að, frú forseti. Það er um hvað er að gerast á öðrum tengdum sviðum. Við skulum taka umræðuna um bankana.

Bankaþjónusta, peningaþjónusta er hluti af grunnalmannaþjónustu fyrir land og þjóð. Til skamms tíma var ríkið ábyrgt fyrir bankastarfsemi í landinu og átti tvo aðalviðskiptabankana, Búnaðarbankann og Landsbankann. Þegar fram kom sá áhugi og sá eindregni brotavilji af hálfu ríkisstjórnarinnar að einkavæða og selja bankana kom það fyrst fram hjá ríkisstjórninni með þeim hætti að það ætti að gerast í dreifðri eignaraðild þannig að þarna væri verið að færa ákveðna eign sem ríkisvaldið ætti. Alþingi kaus reyndar bankastjórnir og síðan ráðherrar, verið væri að færa það almannahlutverk sem bankarnir sinna til fólksins. Það voru almenningsútboð á hlutabréfum í þessum bönkum og allir landsmenn voru hvattir til þess að gerast eigendur í bönkunum. Reyndar uppgötvuðu nokkrir að hægt væri að safna kennitölum fólks og komast þannig yfir fleiri hluti en engu að síður var fór þetta í gang á þessum forsendum.

Að sjálfsögðu þurfa viðskiptabankarnir að eiga sitt frjálsa starfsumhverfi að því marki sem þjóðinni er þénugt. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs töldum að það væri mjög mikilvægt varðandi einkavæðingu bankanna að ekki væri farið of hratt, að stjórn peningamála í landinu væri ekki stefnt í óvissu með því að fara allt of hratt í þessi mál. Við féllumst á að prófa að fara með annan bankann í dreifða eignaraðild og þreifa sig þannig áfram með sölu á bönkunum. En svo þegar salan fór í gang var ekki lengur verið að hugsa um dreifða eignaraðild heldur kom allt í einu fram hugtak, sennilega ættað úr Framsfl. af því að þeir áttu enn þá eftir hauka í horni frá gamla SÍS sem þurfti að búa til grúppu úr, þá fóru menn að tala um kjölfestufjárfesta og þeir ættu að fá rétt til forkaupa á ákveðnum hluta úr bönkunum og fá að semja um kjörin við ríkið. Að vísu var haldið málamyndaútboð á ríkishlutunum en svo var ekkert farið eftir því og bara samið við vildarvinina og það endaði með því að bönkunum var skipt á milli annars vegar aðila Framsfl. og hins vegar aðila Sjálfstfl. Búnaðarbankinn sálugi, sem núna heitir KB banki, fór í hendur þeirra sem töldu sig vera eða voru taldir vera í framsóknararminum og Landsbankinn í hendur fjölskyldu sem hafði lengi tengst í Sjálfstfl.

Við vorum andvíg þessari stefnu og töldum að það væri mjög mikilvægt að halda þjóðbanka, að ríkið væri með þjóðbanka sem væri með afmarkaðar skyldur, afmarkaðar þjónustuskyldur og væri til þess að tryggja jafnræði í peningamálum á Íslandi. Því miður varð ekki af því og því miður voru báðir bankarnir seldir.

Næsti slagur sem við beittum okkur fyrir var að verja sparisjóðina. Þegar fara átti að láta sparisjóðina renna líka inn í annan hvorn einkavædda bankann tókst að spyrna þar við fæti í bili. Engu að síður hafa þessar nýju bankasamsteypur reynst mjög afdrifaríkar í íslensku atvinnulífi og íslensku viðskiptalífi, ekki síst fyrir fjölmiðlana.

Við upplifum það að bankarnir, sem áður voru fyrst og fremst bara þjónustustofnanir í peningaviðskiptum fólks og fyrirtækja og í viðskiptum með peningabréf í einu eða öðru formi, hlutverk þeirra var fyrst fremst sem viðskiptabanki, eru allt í einu orðnir umsvifamiklir í að breyta atvinnu- og eignastrúktúr í landinu. Og þeir verða allt í einu gerendur í endurskipulagningu í fjölmiðlaflóru á Íslandi. Að sjálfsögðu þurfa fjölmiðlar á fjármagni að halda. En ég held að þeir þurfi ekki á því að halda að bankastofnanir sem slíkar fari að ráða uppbyggingu þeirra og strúktúr.

Við upplifðum það sama í sjávarútveginum þegar, eins og við þekkjum úr umræðunni fyrr í vetur, Landsbankinn komst yfir Eimskip og Brim, eitt af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, bútaði þau niður og seldi þau aftur, stóð allt í kringum borðið, átti fyrirtækin, tók að sér að selja þau, stýrði kaupunum, stýrði lánskjörum kaupendanna o.s.frv. þannig að hann var með alla þættina í kring í hendi sér.

Og hver varð niðurstaðan? Jú, þeim tókst að ná nokkrum milljörðum króna út úr sjávarútveginum og var það þó síst sem hann hafði þörf á að gerð væru innbrot í sjávarútveginn með þeim hætti sem þar var gert. Svo þegar sami banki gumar nú af hagnaði fyrstu þrjá, fjóra mánuði ársins þá nemur sá hagnaður eitthvað í kringum það sem sem tókst að hafa út úr þessum sjávarútvegsfyrirtækjum. Það er nú það sem þar er á ferðinni.

Þannig að með aðkomu bankanna, hvort sem er að þessum auðlindum þjóðarinnar, hvort sem það er fjölmiðlastarfsemin, sjávarútvegurinn eða kjötmarkaðurinn, þar liggur kannski meginmeinsemdin og það frelsi sem ríkisstjórnarflokkarnir og hæstv. viðskrh. og einkavæðingarráðherra ríkisstjórnarinnar hefur gefið þessum markaði. Síðan er stokkið á fætur og reynt að kippa í liðinn einum og einum lið sem er að fara svo úr skorðum að þeim blöskrar en áfram er líkaminn meinsjúkur.

[16:00]

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum fram frv. um dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum á 127. löggjafarþingi, 2001--2002. Við töldum að þar værum við einmitt að sigla á vissan hátt í kjölfar og styðja sjónarmið sem höfðu komið fram í ræðu hjá hæstv. forsrh. sem hafði sjálfur sagt á Alþingi að hann legði áherslu á að bankarnir færu í dreifða eignaraðild. Við töldum því að við ættum í honum ríkan og sterkan bandamann þar en þegar á reyndi virtist allt annað búa að baki.

Við komum líka fram tillögu í vetur um að takmarka möguleika viðskiptabankanna til þess að vera með óskyldan atvinnurekstur þegar við lögðum fram frv. til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki á þessu þingi þar sem við lögðum áherslu á að fjármálafyrirtæki gætu einungis fengið eina tegund starfsleyfis og þar sem komið væri í veg fyrir að fjármálastofnanir gætu samtímis verið eigendur að fyrirtæki, ákveðið hver keypti það, ákveðið á hvaða lánskjörum viðkomandi fengi það o.s.frv., kerfi sem mun leiða til mikils ófarnaðar í íslensku atvinnulífi ef það fær að viðgangast. Það mun þrengja svo að umsvifum og samkeppnisstöðu í íslensku atvinnulífi ef aðeins tvær eða þrjár bankasamsteypur, og þar af ein sem er í eigu einnar fjölskyldu, eiga að hafa svona gríðarlega mikið vald.

Undir sams konar vald eru fjölmiðlarnir, ýmsir sem við erum að fjalla um, líka ofurseldir, verða bæði að sækja þar möguleika sína og líka að lúta, því miður. Þess vegna er fyllilega ástæða til að um það sé settur ákveðinn lagarammi sem bæði tryggi fjölmiðlum starfsgrundvöll en hamli því einnig og taki af allan vafa og alla tortryggni um að annarleg sjónarmið önnur en sönn og örugg og góð fjölmiðlun liggi að baki sem hvatir fyrir eign í slíkum fyrirtækjum. Það er mjög mikilvægt að þeirri tortryggni sé eytt og að styrkja þá umgjörð með lögum.

Lögin taka heldur ekki til ýmissa annarra fjarskipta- og fjölmiðlamöguleika. Þau taka ekki til möguleika Landssímans í gegnum símalínur inn á hvert heimili, í gegnum breiðbandið, í gegnum internetið. Ekki er minnst á það í frv. og gæti maður þó haldið að það væri mikilvægt því við erum að sigla þar inn í nýjan tíma og væri þá eins gott að búa sig undir það fyrir fram að setja því einhverja lagaumgjörð, starfsumgjörð sem væri ekki endilega hamlandi á að þessir möguleikar væru nýttir heldur hvernig mætti nýta þá með sem öflugustum hætti á jafnræðisgrunni gagnvart þegnum þjóðarinnar.

Eru ekki andstæður í því að ríkisstjórnin sé að flytja frv. um skorður á eignarhaldi á fjölmiðlum annars vegar og sé hins vegar með á stefnuskrá sinni að selja Landssímann hverjum sem er, þess vegna til Búlgaríu, Landsbankans eða hvers annars sem gæti verið áhugaverður kaupandi? Landssíminn hefur í gegnum net sitt möguleika á að taka upp nú þegar mjög öfluga fjölmiðlun, dreifingu á fjölmiðlaefni inn á hvert heimili og í því liggja reyndar miklir möguleikar. Þetta fyrirtæki er á sölulista og stjórnarherrarnir vildu helst vera búnir að selja Landssímann, en það er ekkert í frv. sem setur skorður eða stýrir þeim farvegi sem fjölmiðlamöguleikarnir í gegnum net Landssímans yrðu að lúta eða aðlaga sig að. Eru þetta trúverðug vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar? Nei, þetta eru ekki trúverðug vinnubrögð, langt í frá.

Ég vona reyndar að sú ákvörðun verði tekin hið fyrsta að hætta við sölu Landssímans og beita styrk hans og möguleikum til að efla fjarskiptaþjónustu um allt land og líka til þess að nýta möguleika Landssímans og nets hans í fjölmiðlastarfsemi á ábyrgð þjóðarinnar. Ég tel að það væri mikilvægt að Landssímanum og styrk hans væri beitt til þess að byggja upp GSM-farsímaþjónustu um allt land og breiðbandsvæðinguna til þess að allir geti orðið virkir þátttakendur í þjóðfélagsumræðunni í gegnum þá fjölmiðla og fjölmiðlun sem fyrir hendi er. En með því kerfi sem við nú búum við hefur orðið fullkominn samdráttur í uppbyggingu á þjónustusviði Landssímans, t.d. í GSM-kerfinu út um landið, vegna þess að verið er að búa fyrirtækið undir sölu og því ekki ráðist í eitthvað sem menn telja óarðbært.

Væri ekki nær að við værum að taka á þessum málum í heild sinni, hættum við sölu Landssímans og könnuðum hvernig nýta megi styrk hans og möguleika til fjölmiðlunar og felldum það líka inn í umræðuna um breytingu á lögum um útvarpsmarkaðinn?

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þau atriði sem ég vildi helst draga fram í þessari umræðu til viðbótar því sem aðrir hafa sagt og bent á hversu afar takmarkað það frv. sem hér er lagt fram er um það mál sem menn héldu að fjalla ætti um. Þar er eingöngu tekið á einum afmörkuðum þætti og menn deila meira að segja um hvort þau tök eða það sem þar er lagt til sé ekki bara til að þrengja að sjálfstæðri og vandaðri fjölmiðlun hér á landi, hvort afleiðingar þess sem hér er lagt til snúist ekki í öndverðu sína við það markmið sem sett er í þeirri vinnu. Menn velta því líka fyrir sér og er ágreiningur um hvort þarna séu á ferðinni hreinar lögleysur í margháttuðum skilningi.

Þess vegna verður að mínu mati að líta á þær tillögur sem lagðar eru fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem einungis innlegg í þá umræðu. Ríkisstjórnin hefur fengið tækifæri til að koma að valdshugmyndum sínum, lönguninni til að deila og drottna í krafti sértæks valds, inn í umræðuna, en að það snerti stöðu, möguleika og almenna og góða umgerð fjölmiðlunar í landinu, það er af og frá.

Ég vil því vitna aftur í upphafsorð ræðu minnar. Það var rædd hér á þinginu í desember þáltill. og ég ætla að vitna beint í hana, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.``

Að þingið skipaði slíka nefnd og að sú nefnd starfaði í nánu samráði við þá aðila sem best þekkja til, Blaðamannafélag Íslands, helstu fjölmiðla eða samtök þeirra, menningarsamtök og aðra sem eðlilegt væri að ættu hér hlut að máli. Það var sú umgjörð sem við vildum búa vinnu þessa máls og að menn gæfu sér tíma --- reyndir menn vinna að vísu hratt og örugglega --- þannig að á næsta þingi væri hægt að afgreiða lagasetningu sem eins góð sátt væri um og nokkur kostur væri á og tæki til allra þeirra þátta sem lúta að fjölmiðlun á Íslandi með það að markmiði að þeir geti starfað og þjónað því lýðræðishlutverki sem þeim er ætlað. Þeim er ætlað að vera einn af hornsteinum lýðræðisins hér á landi. Starfsumgjörð þeirra hlýtur að markast af því að samfélagið er lítið, fámennt en mjög dreifbýlt. Við getum ekki svo auðveldlega innleitt hér einhverjar alþjóðlegar eða evrópskar reglur eða starfsumgerð fjölmiðla fyrir þjóð sem býr í miklu stærra samfélagi, en við höfum sömu markmið um þá kröfu sem við gerum til fjölmiðlunar hér á landi og aðrar þjóðir gera.

Ég ítreka það í lok ræðu minnar, frú forseti, að í umræðunni um fjölmiðlun á Íslandi hef ég saknað þess að ekki skuli vera dregið inn í hana eða tekið inn samfélagslegt hlutverk, félagslegt hlutverk, samfélagsleg krafa til fjölmiðla um að þeir þjóni ekki aðeins markmiðunum um verkefni sitt, um hvað þar fer fram, heldur þjóni einnig öllum landsmönnum. Sú lagaumgjörð sem við gerum á að miða að því að ef fjölmiðlar eru komnir með það virka stöðu í samfélagsumræðunni að hún er farin að hafa mótandi áhrif eða orðin mjög virk, þá eigi landsmenn allir að eiga sem jafnastan aðgang að slíkum fjölmiðlum, bæði að geta tekið þá inn og líka að geta tekið þátt í þeirri umræðu sem þar fer fram. Það skortir mikið á að svo sé, það skortir enn mikið á með Ríkisútvarpið þó að það sé bundið í lögum að það skuli ná með starfsemi sína til landsmanna allra og til nærliggjandi miða í kringum landið, og hefði verið nær að það hefði verið fyrsta paragraf í lögum um fjölmiðla, um réttindi og skyldur fjölmiðla, að það væri sett sem númer eitt þar inn. Einnig finnst mér það alveg sjálfsögð krafa að kanna a.m.k. hvernig koma megi því að við aðra fjölmiðla sem starfa á einkamarkaði. Þeir hafa líka samfélagslegar skyldur og þær samfélagslegu skyldur á að tíunda og draga hér fram. Lagaumgjörð um framtíðarfjölmiðlun hér á landi á að taka mið af landsmönnum öllum en ekki ákveðnum hópi landsmanna eftir búsetu.