Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 21:01:02 (8119)

2004-05-13 21:01:02# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[21:01]

Guðjón A. Kristjánsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er feginn því að hæstv. forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, skuli mættur í salinn. Ég vona að hann hafi heyrt þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég ætla ekki að endurtaka þær í löngu máli en bendi á, hæstv. forseti, að fundarstjórnin hefur stundum verið með þeim hætti að hægt hefði verið að flýta fundarhaldi verulega, þ.e. þegar við höfum spurt um dagskrá þingsins, hversu lengi fundir ættu að standa o.s.frv. Við því hafa stundum ekki fengist svör, jafnvel ekki klukkutímunum saman. Ég held að lengsta umræðan um það efni hafi verið 70 mínútur, hæstv. forseti.

Ég ætla að stytta mál mitt og koma mér beint að efni líðandi stundar og spyrja hæstv. forseta, að viðstöddum hv. þm. Halldóri Blöndal: Hversu lengi hyggjast menn halda áfram á þessu kvöldi? Er hægt að fá einhver skynsamleg og skýr svör við því eða ætla menn áfram að haga stjórn þingsins þannig að aldrei fáist áætlun um hvernig skuli vinna? Þarf það alltaf að gerast eftir geðþótta frá einni stundu til annarrar?

Þess vegna ítreka ég spurninguna, hæstv. forseti: Hversu lengi fram eftir kvöldi eða fram á nótt á að starfa?