Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:17:51 (8180)

2004-05-14 12:17:51# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef löngum bent á að það séu ekki skýr mörk á milli löggjafar og framkvæmdarvalds. Flestöll frumvörp Alþingis eru samin hjá framkvæmdarvaldinu, því miður, og löggjafarvaldið er að vasast í framkvæmdum eins og fjárlagafrv. ber vitni um þegar það kemur úr hv. fjárln. Það er mjög miður að Alþingi ákveði framkvæmdir því að þá getur enginn borið ábyrgð á því gagnvart Alþingi. Framkvæmd sem Alþingi ákveður sjálft getur það að sjálfsögðu ekki gagnrýnt.

Eitt af hlutverkum Alþingis er að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Til þess höfum við, herra forseti, fyrirspurnatíma. Þar tel ég að ráðherrar eigi að sitja til að hægt sé að spyrja þá um framkvæmd laga. Þeir eru nefnilega framkvæmdarvaldið. En sú hefð að kalla til ráðherra í 2. og 3. umr., til að fjalla um stjórnarfrumvörp, finnst mér vera lítilsvirðing. Þá er Alþingi að afsala sér völdum því að það er að ræða niðurstöðu úr nefnd, í þessu tilfelli hv. allshn., sem lagt hefur fram nokkur nefndarálit og brtt. eins og hér er um að ræða. Ætlum við að spyrja ráðherrann út í brtt. nefndarinnar? Á hann að svara fyrir þær? Það er náttúrlega alveg fráleitt.

Ég get hins vegar fallist á það og ég er til í að biðja um að fundi verði frestað þar til formaður nefndarinnar mætir á fundinn. Ég tel nefnilega að hann eigi að sitja hér.