Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 14:31:29 (8244)

2004-05-15 14:31:29# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans hér og þær röksemdir sem hann var með í máli sínu. Ég stend þó upp til að vekja sérstaka athygli á því að hv. þm. nefndi að við meðferð málsins í þeim nefndum sem hann situr í og í umræðum um það, m.a. við lögspekinga, hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að frv. bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Ég tel mikilvægt að þetta komi hér fram og að menn átti sig á að þetta sjónarmið er komið fram frá einum talsmanni stjórnarandstöðunnar, og þetta viðhorf, því það stangast á við það sem sagt var í morgun af talsmönnum Samf., og þær orðræður sem ég átti við þau hér í morgun.

Ég tel mikilvægt að þetta sjónarmið er komið hér fram, að hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að eftir að hann hlýddi á lögspekinga, m.a. í efh.- og viðskn., hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að frv. brjóti ekki í bága við stjórnarskrá.