Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:00:01 (8323)

2004-05-15 18:00:01# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Því miður hefur umræðan farið niður á afskaplega lágkúrulegar brautir og það hefur gerst í tveimur atrennum. Í gær var viðtal við hæstv. forsrh. þar sem fram kom að hann lítur á okkar ágæta forseta, herra Ólaf Ragnar Grímsson, sem pólitískan andstæðing sinn og í seinni atrennu þegar hæstv. dómsmrh. vitnar í bréf og vegur að Samf. með mjög slæmum hætti og lágkúrulegum og í framhaldi af því barst talið að bókhaldi stjórnmálaflokkanna. Ef sá sem hér stendur fengi tækifæri til þess skoða hirslur Valhallar og gæfi sér tíma til að fletta í gegnum gögn þar mundi ekki árið endast til þess að tala um þá svívirðu og þá spillingu sem þar kæmi fram.

Frjálsl., minnsti flokkurinn á þinginu, hefur jafnan verið kenndur við fiskveiðistjórnarkerfið. Eitt af meginmarkmiðum okkar auk þess að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu er einmitt að biðla til fólks í landinu um að hér náist fram lýðræðisleg stjórn þar sem gagnsæi stjórnmálaflokka og útrýming spillingar í landinu eigi sér stað. Fyrir þær sakir höfum við opnað bókhald okkar og lagt það fram á netinu.

Eitt af því sem ég hef tekið eftir og mér þykir afskaplega einkennilegt í meðförum málsins í þinginu eru starfshættir hv. þm. Sjálfstfl. sem eru löglærðir. Flestir þeirra sitja í allshn. Störf þeirra líkjast frekar lögfræðistörfum ungra lögfræðinga í bandarískum kvikmyndum en að þeir séu að starfa sem hv. þm. fyrir íslensku þjóðina. Störf þeirra líkjast því frekar, hæstv. forseti, að þeir séu að ganga erinda ákveðins aðila í einkamáli í bandarískri kvikmynd.

Hv. þm. Birgir Ármannsson gerði að miklu umfjöllunarefni svokallaða meðalhófsreglu í stjórnarskrá Íslands. Ég er ekki löglærður maður en tel mig þó skilja tilgang þessa ákvæðis í stjórnarskrá Íslands. Ég hafði það á orði á fundi efh.- og viðskn. í morgun að líta mætti á meðalhófsregluna sem svo að hún væri diplómatískt verkfæri þegar kæmi að erfiðum málum. Með öðrum orðum að með meðalhófsreglunni ættum við að ná fram með eins mildum hætti og mögulegt er þeim markmiðum sem koma að stjórnarskránni.

Eins og allir vita er svokölluð 5% regla í frv. og 2 milljarða regla líka. Ef Birgir Ármannsson hefði svarað því játandi að 10% regla hefði ekki ógnað meðalhófsreglunni væri hann um leið að fella þá fullyrðingu sína að meðalhófs hafi verið gætt í meðförum málsins.

Því miður er málið sem senn er á enda í 2. umr. að ógna atvinnuöryggi fjölda manna og það er sorglegt, herra forseti, að umræðan hafi farið niður á þær lágkúrulegu brautir eins og ég kom inn á áðan, á meðan fólk í borginni bíður þess á milli vonar og ótta að eitthvert öryggi komist á um framtíð þeirra. Ég segi enn og aftur, eins og ég hef ítrekað í ræðustól í dag, að ég tel ekki alla von úti um að hv. þm. stjórnarliðar og þá jafnvel kannski sérstaklega Framsfl. endurskoði hug sinn í málinu og fylgi sannfæringu rétt eins og félagi þeirra, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hefur ákveðið að gera.