Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:35:51 (8357)

2004-05-17 11:35:51# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Eitt þeirra mála sem mér þykir hvað athyglisverðast almennt í pólitíski umræðu eru landbúnaðarmálin. Í fáum málaflokkum eru málin sennilega á jafnörri hreyfingu og einmitt þar. Það stafar ekki síst af þróuninni og þrýstingnum sem kemur á breytingar utan frá.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra af því að ég hef verið að lesa skýrslur sem hafa komið meðal annars frá Bændasamtökunum og hans eigin ráðuneyti. Þar er því haldið stíft fram með góðum rökum að landbúnaður muni þurfa að búa sig undir miklu harðari samkeppni á næstu árum meðal annars í formi vaxandi innflutnings þar á meðal á unnum mjólkurafurðum í krafti samninga sem verið er að gera innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ljóst er að við munum þurfa að hlíta þeim. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er þessi langi samningur sem er til átta ára búinn þeim kostum að geta tekið tillit til þeirra samninga sem við vitum að eru á döfinni á næstu missirum sem munu krefjast aukins innflutnings á þessu sviði?

Í annan stað spyr ég hæstv. ráðherra: Af hverju er það ekki fyrr en alveg undir blálok samningsins sem verið er að færa umtalsverðar fjárhæðir yfir í óframleiðslutengda styrki?

Hæstv. ráðherra sagði að opinber verðstýring væri neytendum til hagsbóta. En hann sagði jafnframt að slíka verðstýringu þyrfti til að koma í veg fyrir að stórir aðilar á matvælamarkaði mundu geta gert hagstæða innkaupasamninga og þar með lækkað verðið til neytenda. Er ekki þversögn þarna á milli? Er það ekki svo á þessu sviði eins og öðrum sviðum landbúnaðar að aukin samkeppni og meira markaðsfrelsi mun leiða að lokum til hagsbóta fyrir alla, bæði framleiðendur sem geta framleitt með hagfelldum hætti og neytendur?