Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:06:01 (8362)

2004-05-17 12:06:01# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla einmitt að koma að mikilvægu atriði. Hv. þm. talar mjög gegn samkeppni finnst mér og virðist alveg horfa fram hjá því að samkeppni verður til þess að lækka verð til neytendanna og ef framleiðendurnir sem við erum með núverandi lögum að vernda ekki síst í þessu frumvarpi þola það, því við erum í raun að svipta samkeppnislögum frá, þá á það að vera gott. Hv. þm. sagði að menn yrðu að halda áfram opinberri verðstýringu þannig að mjólk yrði á sama verði eða svipuðu verði um allt land til þess að forðast það sem hann kallaði verðstríð á markaði. En verðstríð þýðir í reynd samkeppni. Hverjir gætu staðið í slíkri harðvítugri samkeppni? Þeir sem hagræða mest. Þetta gæti þess vegna leitt til lækkunar til neytenda án þess að ofbjóða þeim sem eru bestir í framleiðslunni. Á meðan framleiðslan er í því jafnvægi sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur tekist að koma henni í ásamt okkur öllum hinum þá tel ég að þetta gæti varla haft neikvæð áhrif á framleiðsluna í heild. Það mundi hins vegar grisja frá þá langlökustu. Er það ekki það sem við viljum gera með þessum hóflegu inngripum í markaðinn sem má mjög deila um? Verður ekki takmarkið einmitt að vera það að við grisjum frá þá sem eru langlakastir? Þess vegna vil ég leyfa mér að mótmæla þessu viðhorfi hv. þm. Ég tel að samkeppni, líka á þessu sviði, geti verið öllum til hagsbóta vegna þess að hún þrýstir framleiðendunum til þess að hagræða enn frekar hjá sér og þeir hafa ákveðið svigrúm til þess innan þessa frumvarps þótt benda megi á ýmislegt líka sem vinnur í þveröfuga átt, sérstaklega þegar komið er að stórum búum.