Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:29:49 (8369)

2004-05-17 12:29:49# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu hv. þm. komu fram efasemdir um að Samkeppnisstofnun hefði þann aðgang sem hún þyrfti að hafa. Nákvæmlega í þessu frumvarpi, það er í 2. gr. í frumvarps um verðlagningu og sölu á búvörum, ríkti réttaróvissan um hvort mjólkuriðnaðurinn væri undir samkeppnislögum eða búvörulögum. Hér eru því tilgreindar þær afurðir sem eru undir búvörulögum en ekki samkeppnislögum til að tryggja að mjólkuriðnaðurinn geti starfað áfram. Aðrir þættir eru eðlilega áfram undir samkeppnislögum. Á hitt ber að líta að aðhaldið kemur auðvitað úr mörgum áttum. Í fyrsta lagi er það verðlagsnefndin. Hún veitir sitt aðhald og það kemur fram í 1. gr. að leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar. Í verðlagsnefndinni koma að máli fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, BSRB og ASÍ. Síðan eiga bændurnir auðvitað afurðastöðvarnar og koma með sitt aðhald þar. Smásalan veitir einnig aðhald með sínum hætti og viðskiptum með þessi fyrirtæki. Í fjórða lagi má segja að aðhald komi líka frá öðrum vörum og erlendis frá. Ég held því að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Aðhaldið er tryggt. Með því að gera þetta að lögum er réttaróvissunni eytt og hinn sterki mjólkuriðnaður fær að starfa áfram og undirbúa sig enn frekar en hann hefur gert undir þá framtíð sem kemur með alþjóðasamningunum og (Forseti hringir.) auðvitað er meginkrafa líka að geta lækkað verð til neytenda á því tímabili sem fram undan er.