Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:35:46 (8373)

2004-05-17 12:35:46# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:35]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi mjólkuriðnaðinn. Þar hefur náðst fram mjög mikil hagræðing því að árið 1998 voru starfandi 12 mjólkurbú en árið 2003 voru þau níu og á því tímabili sem núgildandi samningur hefur staðið hefur framleiðni vinnuafls aukist um 7%. Á tímabilinu 1998--2002 hefur samanlagður árlegur hagnaður afurðastöðva verið á bilinu 100--500 milljónir króna fyrir greiðslu yfirverðs á föstu verðlagi árið 2002 og hefur þessi hluti hagnaðarins að mestu verið greiddur út sem arður til mjólkurframleiðenda eða sem yfirverð á mjólkina.

Vegna þess að hv. þm. ræddi um skuldsetningu í landbúnaði langaði mig aðeins að taka undir það að hún hefur verið töluverð. Því er mjög mikilvægt að mjólkurframleiðendur fái þennan langtímasamning þannig að þeir viti í hvaða umhverfi þeir vinna. En skuldsetningin er aðallega komin vegna fjárfestinga í byggingum, í vélum og greiðslumarki. Þar er verið að bæta vinnuaðstöðu og standast kröfur um heilbrigði. Í þetta hefur fjármagnið farið.

Fram til ársins 2000 var mikil aukning en dregið hefur úr fjárfestingum frá þeim tíma. Helmingur fjárfestinga á tímabilinu 1998--2002 er í vélum og tækjum og um þriðjungur er í kaupum á greiðslumarki.