Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:43:00 (8464)

2004-05-17 21:43:00# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:43]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Ég hef stutt það í atkvæðagreiðslu í þinginu þannig að óþarfi er að spyrja um það.

Það er rétt hjá hv. þm. að dagakerfið eins og við þekkjum það er ekki fullkomið kerfi. Auðvitað er ákveðin rómantík í því fólgin að geta farið út á sjó og veitt meðan pláss er í bát og gott fiskirí er, en það er ekki fullkomið kerfi þegar við vegum saman magn, gæði, atvinnu, hvenær fiskur er tekinn o.s.frv. En ég er alls ekki á því að við eigum að leggja það kerfi af eða slá það af því ég held að það að vera með möguleikann á að sækja með þeim hætti sem smábátarnir hafa verið að gera, séum við þó með tæki sem segir okkur hvert fiskiríið er, þ.e. við vitum ef vel fiskast að það er mikill fiskur á slóðinni. Í því kvótakerfi sem við erum með í dag höfum við yfirleitt aldrei hugmynd um það því ef það er fiskur og mikið fiskirí forða menn sér og reyna ekki einu sinni að ná þeim fiski sem hægt er vegna þess að þeir eiga ekki kvóta eða aflaheimildir fyrir honum.

Hv. þm. sagði að ég hefði sagt að kerfið væri varla á vetur setjandi en nú þekkir hann náttúrlega eins og ég að þetta er sumarkerfi að mestu leyti en ekki vetrarkerfi þannig að ég held því fram að það sé ekki á vetur setjandi enn þá a.m.k. að vera með sóknarkerfi á smábátum yfir veturinn. En ég þarf ekki að svara því skýrar en ég hef gert, ég hef greitt því atkvæði í atkvæðagreiðslu að sett verði 23 daga gólf þegar menn voru að velta því fyrir sér. Og ef við ætlum að halda í sóknardagakerfið verðum við að gera það eins og menn, við verðum að gera það þannig að hægt sé að lifa á því annars er betra að leggja það af.