Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:19:05 (8476)

2004-05-17 22:19:05# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:19]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði mikið úr vilja Landssambands smábátaeigenda. Sá vilji hefur legið fyrir í ályktunum þeirra samtaka missirum og árum saman. Þess vegna ætti ekki að vera ástæða til að bjóða upp á valkosti. Skoðun þeirra hefur verið afdráttarlaus, þeir vilja sóknardaga. Þetta fer að minna mann á Evrópusambandsaðildarumsóknina hjá Norðmönnum. Það er kosið um aðildina, hún er felld og daginn eftir byrja aðildarsinnar aftur að kvaka um það að nú þurfi að hafa aftur kosningu vegna þess að niðurstaðan var ekki ásættanleg fyrir þá sem töpuðu.

Eins er það hér, stjórnvöld sætta sig ekki við þá eindregnu skoðun sem hefur endurspeglast í ályktunum Landssambands smábátaeigenda um að þeir vilji sóknardaga og vilji rekstrargrundvöll á grundvelli sóknardaga. Hvers vegna verðum við ekki bara við því?