Uppfinningar starfsmanna

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 13:31:25 (8556)

2004-05-18 13:31:25# 130. lþ. 119.20 fundur 313. mál: #A uppfinningar starfsmanna# frv. 72/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Björgvin G. Sigurðsson (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var kominn þar sem ég var búinn að stikla á stóru yfir það meginstarf sem fram fór í nefndinni um þetta mál um uppfinningar starfsmanna. Töluverðan tíma og þrautseigju tók að ná lendingu í málinu gagnvart þeim sem það snerti mest, þ.e. annars vegar starfsmönnum og hins vegar atvinnurekendum. Hagsmunir þessara tveggja hópa virtust óbrúanlegir til að byrja með, mjög mikið bar á milli og var tekist harkalega á. En fyrir tilstuðlan þess nefndarstarfs sem fram fór á nokkuð löngum tíma tókst að ná málum þannig að báðir aðilar eru sáttir. Bæði fulltrúar atvinnurekenda, í þessu tilfelli Íslenskrar erfðagreiningar, og hins vegar BHM styðja fram komið frv. með þeim breytingum sem iðnn. leggur til og hv. formaður nefndarinnar rakti svo ágætlega áðan. Menn náðu lendingu annars vegar um það sem snertir sanngjarnt endurgjald til starfsmanna og hins vegar var þeirri óvissu eytt sem laut að fyrirtækjunum. Bakkröfur, sem gerðu starfsumhverfi ómögulegt fyrir hátæknifyrirtæki á borð við Íslenska erfðagreiningu, eiga ekki að geta komið á þau. Ekki eiga heldur að felast í því þannig hættur að ugg setji að eigendum fyrirtækjanna og menn færu að hugsa um það í nokkurri einustu alvöru að fara með fyrirtækið í burtu eins og látið var í veðri vaka í upphafi starfsins, þ.e. ef sú útgáfa af frv. næði fram að ganga væru blikur á lofti. Það kom hreint og klárt fram í máli fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar að það væru þá blikur á lofti og fyrirtækið þyrfti jafnvel að hugsa sinn gang með það hvort það héldi áfram starfsemi á Íslandi eða tæki upp tjaldhælana og flytti sig úr landi.

Hvort sem svo harkalega þurfti að nálgast málið eða ekki þá var augljóst mál að mikið bar í milli og sama var upp á teningnum hjá fulltrúum BHM að þeim þótti þetta mál algerlega óþolandi. Þess vegna lögðum við nefndarmenn allt kapp á það að málið færi ekki frá okkur fyrr en sátt væri náð og þessir tveir hlutaðeigendur væru sáttir, styddu málið báðir. Þetta mál færi ekki frá okkur í óþökk annars hvors því það væri ekki markmið frv. Þvert á móti var markmið með frv. að tryggja réttarstöðu annars vegar starfsmanna þannig að þeir þyrftu ekki að vera að semja um öll sín atriði við atvinnurekanda og hins vegar að setja almennar reglur sem tækju á stöðu og umhverfi hátæknifyrirtækja sem engum blandast hugur um að er einn meginsprotinn í okkar atvinnulífi. Það eru hátæknifyrirtækin sem hér hafa sprottið upp hvert af öðru á síðustu árum og þekktasti merkisberinn er að sjálfsögðu Íslensk erfðagreining, enda eitt fyrirferðamesta fyrirtæki á íslenskum atvinnumarkaði um óralangt skeið. Miklar deilur urðu þegar fyrirtækið var sett á laggirnar. Deilur um gagnagrunnin og fleira og fleira sem laut að sértækum hvort sem menn vilja kalla það ívilnunum eða sértækum aðstæðum sem fyrirtækinu voru búnar til að það mætti verða að veruleika og til að ná þeim árangri sem margir stuðningsmenn fyrirtækisins höfðu að leiðarljósi, það var að fyrirtækið hefði aðgang að þessum gagnagrunni til að sigur mætti vinnast í baráttunni við erfiða illvíga sjúkdóma sem eru ættgengir. Þess vegna hefur sá sem hér stendur alltaf stutt Íslenska erfðagreiningu eindregið og þann ramma sem því fyrirtæki var sniðinn en það er annað mál.

Hv. formaður iðnn. gat um það að við byggðum þessa löggjöf á danskri löggjöf sem samþykkt var til að bæta úr réttaróvissu um uppfinningar starfsmanna m.a. vísindamanna þar í landi og auk þess er í frv. gerð ágæt grein fyrir ýmsum öðrum lögum. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það heldur vil ég hleypa fleirum að en ætla aðeins í lokin að nefna bresku lögin af því að það er komin töluverð reynsla á þá lagasetningu þar sem hún er frá árinu 1977. Þar er kveðið á um að atvinnurekandi eigi framsalsrétt til uppfinningarinnar þegar um svonefndar starfsuppfinningar er að ræða. Sama regla gildir þegar verkefni sem starfsmaður vinnur að leiðir til uppfinningar og atvinnurekandinn mátti vænta þess að svo yrði. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Á stjórnendum fyrirtækja hvílir ríkari trúnaðarskylda gagnvart atvinnurekandanum en þegar um almenna starfsmenn er að ræða. Rétturinn til uppfinningar fellur þannig atvinnurekanda í skaut þegar í hlut á stjórnandi sem vegna starfsskyldna sinna hefur sérstaka trúnaðarskyldu gagnvart atvinnurekandanum, óháð því hvort um starfsuppfinningu er að ræða eða ekki. Þegar þessum tilvikum sleppir er starfsmaðurinn ávallt talinn vera eigandi uppfinningarinnar, þ.e. um einkauppfinningu er að ræða, og eru allar tilraunir atvinnurekandans til þess að svipta starfsmanninn þeim rétti ógildar.``

Bresku reglurnar mæla svo fyrir um endurgjald að það komi aðeins til álita ef sótt er um einkaleyfi sem leiðir til verulegs ávinnings eða eins og segir í frv., outstanding benefit, þ.e. þegar um verulegan ávinning af uppfinningu hefur verið að ræða. Þetta mál er því mikilvægt og það er gott að það kom fram. Í upphafi sáum við ekki fyrir að það næðist að lenda þessu máli þannig að sátt ríkti milli starfsmanna, þeirra sem vinna að uppfinningum í hátæknigeiranum og annars staðar, svo og þeirra fyrirtækja sem eiga allt sitt undir því að starfsmenn þeirra finni eða skapi uppfinningu og nái að þróa og móta svo fyrirtækið verði fyrir verulegum ábata, uppfinningu sem skiptir sköpum fyrir rekstur fyrirtækisins, rekstrarumhverfi og rekstrargrunn hvers konar.

Það þarf að ríkja sátt milli starfsmanna og atvinnurekenda sérstaklega með tilliti til þess að starfsmenn þurfi ekki að vera að semja um öll sín kjör og réttindi hverju sinni. Heldur eins og segir í nefndarálitinu, það sé um að ræða almennar reglur um uppfinningu starfsmanna sem taka bæði tillit til hagsmuna atvinnurekenda og starfsmanna þannig að þeir þurfi ekki að semja sín á milli um öll atriði. Það var eiginlega kjarni málsins að við næðum að búa til og skapa almennar reglur sem tækju til réttinda, skyldna og hagsmuna beggja þessara aðila af því að hvorugur getur án hins verið.

Hátæknifyrirtækin byggja allt sitt á hugviti og uppfinningum starfsmanna sinna. Þar eru verðmætin maðurinn og hugvit mannsins það eru meginverðmæti fyrirtækisins. Búi slík fyrirtæki ekki yfir miklu ríkidæmi af starfsfólki sem vinnur ötullega að skapandi starfi, sem leiðir til uppfinninga og þróunar uppfinninga, eru þau einskis verð. Hér er ekki um að ræða eitthvað sem hönd á festir eins og þau fyrirtæki og þær atvinnugreinar sem reiða sig á frumframleiðslu náttúruauðlinda og annarra slíkra hefðbundinna iðngreina og framleiðslugreina heldur reiða þessi fyrirtæki sig eingöngu og algerlega á hugvit sinna starfsmanna. Þess vegna varð það svo nauðsynlegt að ná sátt milli þessara tveggja aðila þannig að hér logaði ekki allt í illdeilum sem jafnvel leiddu til þess að einhver hátæknifyrirtæki sem skipta meginmáli á þessum markaði tækju sig upp og færu í burtu, kannski ekki með alla starfsemi sína en hugsanlega hluta hennar. Það kom fram í máli lögfræðings Íslenskrar erfðagreiningar, Jóhanns Hjartarsonar á fundi nefndarinnar að gengi upphaflega lagafrv. eftir þá sæi fyrirtækið sér þann kost vænstan að flytja með hluta starfseminnar til Bandaríkjanna, Kaliforníu. Hann sagði hreint og beint út að þá væri hluti og meginrekstur fyrirtækisins einfaldlega miklu betur kominn í Bandaríkjunum þar sem lagaumhverfi er varðaði uppfinningar væri miklu frjálslegra og opnara og auðveldara fyrir fyrirtækin að tryggja sína hagsmuni. Það ætti ekki á hættu að þurfa að greiða ófyrirséðar og í mörgum tilfellum örugglega stjarnfræðilegar upphæðir til starfsmanna fyrir uppfinningar sem ekki hefur verið samið um að fullu og fast fyrir. Þetta að sjálfsögðu hleypti öllu í bál og brand að því er varðaði fulltrúa starfsmanna. Þess vegna var það mikil vandvirknisvinna að semja lagafrv. sem leiddi þessa aðila saman svo við hefðum í höndunum, verði frv. að lögum frá Alþingi í vor, almennar reglur sem tryggja hagsmuni beggja þessara aðila, starfsmannanna að sjálfsögðu alls ekki síður en fyrirtækisins. En lögin eiga líka að vera þess eðlis og þess efnis að þau virki frekar til þess að lokka hátæknifyrirtæki til Íslands og hvetji frumkvöðla og hugmyndaríka einstaklinga til að setja á stofn hátæknifyrirtæki sem reiða sig fyrst og síðast á uppfinningar starfsmanna heldur en að fæla slík fyrirtæki frá. Reglurnar mega ekki leiða til þess að mönnum þyki það augljós og miklu betri kostur að slá niður tjöldum sínum í öðrum löndum af því að þar sé lagaumhverfi miklu rýmra og frjálslegra og miklu minni hætta á því að til skakkafalla komi í rekstri fyrirtækisins vegna einhverra ófyrirséðra bóta eða greiðslna til starfsmanna vegna uppfinninga. Þess vegna tekur þetta mál um uppfinningar starfsmanna til þeirra grundvallarsjónarmiða sem margir hafa í frammi um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Íslandi.

Vilji menn að við reiðum okkur fyrst og síðast á hugvitið, mannvitið, þá verður umhverfi fyrirtækjanna sem byggja á því að vera þannig að menn sjái sér fært og þyki freistandi að starfa hérna. Þess vegna var þetta ekki léttvægt mál um einhver formsatriði eða Evrópureglur. Þó að við séum að vissu leyti að samræma löggjöf okkar að Evrópureglum, þá er þetta mál sem tekur til grundvallaratriða í íslensku atvinnulífi. Málið tekur til umhverfis starfsmanna, uppfinningamanna, ungs og framsýns starfsfólks sem er að vinna af fullum krafti við að skapa verðmæti í krafti hugarflugsins og uppfinninga og aftur þess að öflug og voldug hátæknifyrirtæki með framtíð fyrir sér sjái sér kost að setjast að á Íslandi eða byggja upp starfsemi sína á Íslandi. Eins og allir vita í dag þá er sama hvort það er Íslendingur eða útlendingur sem fær hugmynd að fyrirtæki t.d. á borð við Íslenska erfðagreiningu þá er ekkert sem segir að hann stofnsetji fyrirtækið á Íslandi finnist honum eitthvað í lagaumhverfinu orsaka að ómögulegt sé við ákveðin skilyrði að halda áfram uppbyggingu fyrirtækisins eða að með einhverjum hætti verði stoðunum kippt undan rekstri fyrirtækis hans.

Engum blandast hugur um hvílík vítamínsprauta Íslensk erfðagreining var inn í íslenskt atvinnulíf, hvað sem mönnum finnst um tilurð þess að fyrirtækið fékk einkaleyfið og gagnagrunnsmálið og það allt saman. Þá blandast engum hugur um það, þrátt fyrir þær þrengingar sem fyrirtækið hefur að einhverju leyti gengið í gegnum og því miður þurfti að segja upp töluverðum fjölda starfsmanna sem olli miklum sársauka og uppþotum í ákveðnum greinum vinnumarkaðar okkar, þá varð þetta til þess að hundruð ungra Íslendinga sem voru við nám og störf erlendis sáu sér fært að flytja aftur heim. Langflestir Íslendingar sem hafa menntað sig erlendis eða starfað erlendis um tíma vilja koma aftur heim. Hérna vill fólk búa, ala upp börnin sín og lifa sínu lífi. Hins vegar er það svo að það vantar verulega störf á Íslandi fyrir þá sem hafa ýmiss konar menntun sem lýtur að tækni, raungreinum, verkfræði, stærðfræði, þessari undirstöðumenntun undir alla uppbyggingu hvers kyns atvinnulífs sem reiðir sig á hátækni, verktækni, iðnað o.s.frv. Það verður seint séð fyrir endann á þeim afleiðingum og þá meina ég afleiðingum í jákvæðum skilningi fyrir íslenskt samfélag að hafa fengið allt þetta fólk aftur heim og gefið þessu fólki kost á að lifa og starfa á Íslandi, ala upp börnin sín og veita sínu afli inn í íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag með öllum þeim kostum sem því fylgja. Við eigum með ráðum og dáð eftir öllum mögulegum leiðum að standa við bakið á hátæknifyrirtækjum sem vilja koma hingað. Bara þannig gerbreytum við íslensku atvinnulífi í þá veru sem við margir viljum sjá það þróast í. Atvinnulíf og samfélag byggt á hugviti, menntun og þekkingu sem leysir af hólmi atvinnuhætti fortíðar sem eru að verða veigaminni í okkar samfélagi. Það gengur á náttúruauðlindirnar. Frumframleiðslan einfaldlega er ekki eins ábatasöm og hún var áður og fer fram víða um heim. Það verður æ mikilvægara, þó svo lítið hafi verið gert í því á síðustu árum, að vinna markvisst að því að byggja upp öflugt og einstakt atvinnuumhverfi þar sem við reiðum okkur fyrst og fremst á hátækniiðnað hvers konar, iðnaðarframleiðslu, ýmiss konar smáiðnað o.s.frv., atvinnu sem byggist á hugviti einstaklingsins og gefur einstaklingunum kost og færi á að þróa kosti sína í slíku umhverfi en þeir þurfi ekki að leita út fyrir landsteinana vilji þeir vinna við eitthvað annað en hinar hefðbundnu gömlu iðngreinar og starfsgreinar. Jafnágætar og prýðilegar og þær eru þá skila þær okkur ekki á þeim hraða og með þeim hætti inn í framtíðina sem við öll viljum hafa. Þess vegna tók þetta frv. til laga um uppfinningar starfsmanna til þessara grundvallaratriða í íslensku atvinnulífi.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það í bili en ítreka þakkir mínar til félaga minna í nefndinni og formanns nefndarinnar fyrir afspyrnu gott og árangursríkt samstarf sem leiddi til þess að starfsmenn og fyrirtækin gengu hönd í hönd frá því sáttarborði sem iðnn. var í þessu tilfelli.