Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 15:19:43 (8573)

2004-05-18 15:19:43# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál er nú komið til 2. umr. og það varð nokkur umræða um það við 1. umr. þess. Þar ræddi ég m.a. um að ég væri ekki fullkomlega ánægður með frv. Mér fannst vanta ákveðinn botn í málið sem ég hef lengi talið að þyrfti að vera í því. Ég ætla ekki að endurtaka ræðu mína frá því þá sem fyrst og fremst gekk út á það að hæla þeim fyrirætlunum sem komu fram í frv. um að stuðla að sameiningu sveitarfélaga. Ég held að í raun og veru hafi verið staðið prýðilega að þeim undirbúningi sem gerður var í málinu og ég veit að það er fullur hugur og vilji hjá stjórnvöldum og sveitarfélögum að hér verði um verulega breytingu að ræða og eflingu sveitarfélaganna og grunnmarkmiðið er að öll sveitarfélög í landinu geti staðið undir svipaðri þjónustu. Þau geti tekið að sér svipuð verkefni frá hinu opinbera og verkefni verði flutt til sveitarfélaganna frá hinu opinbera. Í þessu felast að mínu viti afar miklir möguleikar fyrir sveitarfélög úti á landi til að fá til sín opinbera starfsemi og eflast og auðvitað líka að eflast með því að verða sterkari og eiga þá jafnvel möguleika á því að taka á í atvinnumálum eða í aukinni þjónustu við fólkið sem býr í þeim sveitarfélögum.

En það sem ég taldi á skorta og taldi mig færa nokkuð góð rök fyrir við 1. umr. virðist ekki hafa dugað til að félmn. kæmist að þeirri niðurstöðu að ganga ætti til móts við þau sjónarmið. Þau voru að jafnframt þyrfti að setja hærri lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögin. Ég færði fram þau rök fyrir því að 50 íbúa markið væri svo lágt að það væri gersamlega fráleitt að halda áfram að hafa það. Það veldur því að örsmá sveitarfélög geta haldið áfram að standa utan við þau sveitarfélög sem hér er verið að tala um að skapa og það er vilji til þess í fáeinum sveitarfélögum í landinu að gera það. Hann hefur ítrekað komið fram í umræðum um sameiningu sveitarfélaga og í kosningum um sameiningu sveitarfélaga. Í flestum tilfellum, en þó ekki nærri öllum, er um að ræða sveitarfélög sem af einhverjum ástæðum hafa meiri tekjur en önnur og þær einhverju ástæður eru í öllum tilfellum vegna þess að hið opinbera hefur tekið ákvörðun um að setja niður einhvers konar starfsemi innan þeirra sveitarfélaga. Það er gersamlega óþolandi að í slíkum sveitarfélögum verði það niðurstaða að vera ekki með í sameiningu sveitarfélaga.

Ég hef frekar fengið svör við því á göngum Alþingis og annars staðar hvers vegna menn hafi ekki viljað hækka lágmarkið. Svörin eru þau að þetta verði síðasta frjálsa sameiningin. Ef ekki verði allir með verði framhaldið að setja lög og ég segi bara hvers lags vinnubrögð eru það? Hvers vegna segja menn ekki það sem þeim býr í brjósti í þeirri lagasetningu sem hér fer fram? Mér finnst að menn eigi að gera það og ég kalla líka eftir því af því að ég hef líka heyrt þau svör og haldnar hafa verið ræður í hv. Alþingi, að vísu færri núna en oft áður, um að ekki megi beita lagaþvingun til sameiningar sveitarfélaga, menn vilja ekki standa að því. Þá þurfa viðkomandi, finnst mér líka, að koma upp og rökstyðja hvers vegna þeir styðja 50 íbúa lágmarkið því það er nákvæmlega sams konar lögþvingun fólgin í því, og henni hefur reyndar oft verið beitt, og yrði í einhverju öðru íbúalágmarki. Þess vegna hefur mér fundist skorta nokkuð á hjá þeim sem ekki vilja að þetta íbúalágmark verði hækkað að koma og rökstyðja hvers vegna þeir vilja hafa 50 íbúa lágmarkið áfram en ekki einhverja aðra tölu.

Ég vil meina að það sé ákveðin hætta á ferðum gagnvart þessu máli einfaldlega vegna þess að það getur komið í veg fyrir það á einstökum svæðum að til verði þau sveitarfélög sem ættu að verða til ef allir stæðu frammi fyrir því að þeir þyrftu að taka á í sameiningarmálum og þeir mundu t.d. samkvæmt því lagafrv. sem ég hef flutt undanfarin ár hafa fullt svigrúm til þess að taka þátt í frjálsri sameiningu vegna þess að í því frv. var alltaf gert ráð fyrir að menn hefðu þennan frest til þess að ná samkomulagi um sameiningu, reyndar þriggja ára frest. Það er hálfundarlegt af hálfu Alþingis að hér séu sett lög sem er ætlað það hlutverk að stækka sveitarfélögin í landinu og það kæmi síðan í ljós að eftir þann feril yrði sett löggjöf um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum. Að mínu viti gæti það ekki orðið nema með einhverjum aðlögunartíma sem ég tel að væri hæfilegur þrjú ár. Ég er enn þá á þeirri skoðun. Það mundi þýða að sá ferill sem verið er að setja í gang til stækkunar sveitarfélaga lengdist um þrjú ár vegna þeirra sveitarfélaga sem ekki vildu verða með. Það er þess vegna sem ég hef haldið því fram að skynsamlegt hefði verið hjá hv. félmn. að bæta inn í frv. ákvæðum af sama tagi og ég hef flutt í frv. á undanförnum árum um hærri lágmarksíbúatölu sveitarfélaga. Þar er ég ekkert endilega að tala um 1.000 íbúa lágmark frekar en eitthvað annað. En fyrst og fremst að íbúalágmarkið verði hækkað með þeim hætti að sveitarfélögin sem hafa fram að þessu talið að þau ættu ekki að sameinast öðrum sveitarfélögum vegna tekna sinna eða af einhverjum öðrum sérástæðum vissu það og gengju algerlega að því vísu að svo lítil sveitarfélög yrðu ekki til í landinu til frambúðar og það er að mínu viti skylda löggjafans að tala skýrt í þessu máli. Það er alveg greinilegt miðað við almennan pólitískan vilja í landinu til þess að færa verkefni og þjónustu til sveitarfélaganna að það er ekki raunverulegur pólitískur vilji fyrir því að svo örsmá sveitarfélög verði til til framtíðar sem nú er gert ráð fyrir í löggjöfinni. Mér finnst þess vegna að félmn. hafi ekki velt þessu máli nógu gaumgæfilega fyrir sér og því hvaða afleiðingar það getur haft á einstökum svæðum og jafnvel á flutning verkefna almennt til sveitarfélaganna vegna þess að auðvitað þurfa sveitarfélögin að geta veitt sambærilega þjónustu. Íbúar sveitarfélaga hljóta að þurfa að geta gert kröfu um það að þeir fái sambærilega þjónustu í sveitarfélögunum. Það munu hin litlu sveitarfélög aldrei geta uppfyllt.

Hugsanlegt hefði verið að menn hefðu velt fyrir sér einhverjum öðrum möguleikum og ég ætla ekki að halda langar ræður um þá hluti en það eru auðvitað tilteknir möguleikar til þess að koma á sameiginlegri þjónustu sveitarfélaga en það er auðvitað bara hálfkák og engin ástæða til að fara slíkar leiðir vegna þess að þetta er sú einfaldasta og þetta er sú leið sem verður ofan á að lokum. En það er veruleg hætta á því að þessi mál muni tefjast að einhverju leyti vegna þess að menn hafa ekki treyst sér til að slá almennilega botninn í tunnuna.

Ég verð því að að þessu leyti að lýsa yfir vonbrigðum mínu með niðurstöðu nefndarinnar og ég kalla eftir rökstuðningi og viðbrögðum við því sem ég er að segja vegna þess að ég sé ástæðu til að það komi fram við umræðuna hvort það sé virkilega svo að ég sé í fullkomnum minni hluta með það sjónarmið sem ég hef verið að halda fram. Ég hef nefnilega grun um að það sé ekkert endilega svo. En ég hafði ekki hugsað mér að standa í því að flytja frv. mitt sem ég hef gengist fyrir að verði borið fram á Alþingi, sem reyndar fleiri flytja, sem breytingartillögu við þetta mál nema að einhver tilgangur væri í því. Ég hef engan áhuga á því að láta það gerast sem iðulega gerist í sölum Alþingis að menn fella jafnvel þingmál sem þeir í hjarta sínu eru sammála vegna þess að það er einhver pólitísk niðurstaða að það skuli ekki ganga fram. Þess vegna taldi ég best að senda skilaboð við 1. umr. og óska eftir því að nefndin fjallaði vandlega um málið og ég veit að hún hefur fjallað um það. En niðurstaðan hefur sem sagt orðið sú að láta það eiga sig sem alveg klárlega mun verða til þess að á einhverjum svæðum á Íslandi verða vanburðug sveitarfélög sem ekki munu geta tekið að sér þau verkefni sem almenn pólitísk samstaða er um að flutt verði til sveitarfélaganna. Ég blæs á þær röksemdir að það eigi að virða sjálfstæði sveitarfélaganna vegna þess að sjálfstæði sveitarfélaganna er sjálfstæði þeirra sveitarfélaga sem pólitísk niðurstaða í landinu verður um að verði í framtíðinni. Það þýðir ekkert að koma upp í ræðustól á Alþingi og tala um að gefa verði mönnum tækifæri til að ákveða þetta sjálfir þegar menn segja svo á göngum Alþingis: Svo setjum við bara lög á þá ef þeir verða ekki með núna. Mér finnst það ekki skemmtileg pólitík sem þannig er rekin. Það er miklu nær að menn fái að vita hvernig framtíðin verður hjá þeim þannig að þeir geti hugsað málin út frá því og að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því að slá botninn í málið og gera það kannski þremur árum seinna en annars væri hægt að gera.

Ég ætla að öðru leyti ekki að fara yfir málið en ég vildi ræða þennan hluta þess vegna þess að mér fannst full ástæða til úr því að menn treystu sér ekki til að taka á því, og læt máli mínu lokið, hæstv. forseti.