Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:08:50 (8656)

2004-05-19 12:08:50# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanrrh. hefur ítrekað komist svo að orði í fjölmiðlum undanfarna 1--2 sólarhringa að með þeim breytingum sem hann og hæstv. forsrh. hafi orðið sammála um að gera nú enn á frv. sé hann ,,öruggari með sig gagnvart stjórnarskránni``. Ég held að ég fari alveg orðrétt með þetta, a.m.k. efnislega alveg örugglega. Hæstv. utanrrh. er nú með þessum fyrirhuguðu breytingum öruggari með sig gagnvart stjórnarskránni, honum er rórra. Þetta er afar athyglisverð yfirlýsing og ber með sér að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. hafi verið óöruggur með sig gagnvart stjórnarskránni miðað við frv. í upphaflegri mynd. Ég vil biðja hæstv. utanrrh. að skýra betur út þessi ummæli sín. Hvað var hann óöruggur um og hverju sætir að hann féllst engu að síður á framlagningu frv. sem stjórnarfrumvarps þótt hann hafi verið, miðað við þessar yfirlýsingar, óöruggur um að það stæðist stjórnarskrána?