Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 13:30:40 (8669)

2004-05-19 13:30:40# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[13:30]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Við erum sennilega að hefja lokaumræðu þess máls sem hér hefur borið svo mikið á undanfarna daga og vikur, a.m.k. tvær, þrjár síðustu vikur. Ef að líkum lætur mun hæstv. ríkisstjórn ætla að klára málið með því lagi sem nú er lagt upp með. Þegar ég orða þetta svona, hæstv. forseti, er ég auðvitað að vitna til þess að málið er búið að vera í ýmiss konar umfjöllun og ýmislegt hefur verið sagt um það, m.a. það sem rétt er að rekja í upphafi máls að þegar ríkisstjórnin kom fyrst með málið inn í þingið, sem var jú eftir að það hafði verið kynnt þjóðinni í fjölmiðlum, þá lít ég a.m.k. svo á að það hafi verið önnur útgáfa málsins vegna þess að það hafði komið fram áður að hæstv. forsrh. hafði lagt fram tillögur í ríkisstjórninni og að menn höfðu síðan rætt tillögur hans og niðurstaðan af því var svo fyrsta frv. sem birtist í Morgunblaðinu og var síðan lagt fram á hv. Alþingi. Þar af leiðandi lít ég svo á, hæstv. forseti, svo það sé alveg skýrt þegar ég fer að tala um málið á eftir, að sú útgáfa sem hingað barst í upphafi hafi verið önnur útgáfa málsins, þ.e. fyrsta útgáfan hafi verið þær tillögur sem hæstv. forsrh. kom með inn í ríkisstjórnina og frv. eins og að leit út í upphafi hafi í raun og veru verið önnur útgáfa málsins og tillögurnar sem komu hingað inn fyrst í frumvarpsformi hafi verið annar áfangi málsins eins og það birtist hér.

Menn lýstu því yfir þegar málið kom hér inn fyrst í annarri útgáfu að þá hefðu menn verið búnir að lenda öllum ágreiningi í ríkisstjórninni og vinna málið ákaflega vel og að um það væri geysilega mikil sátt í ríkisstjórninni að koma með það inn í þeim búningi sem það var og menn teldu málið algerlega tækt hér og þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að það stæðist ekki öll viðmið í stjórnarskrá eða um afturvirkni eða að það kæmi með neinum hætti þannig fram að það væri ótækt eða óþingtækt. Síðan hefur komið fram þriðja útgáfa málsins, þ.e. þegar búið var að ræða málið í langan tíma eins og það kom fram fyrst og menn voru búnir að fara yfir efni þess kom fram eftir 1. umr. brtt. frá meiri hluta allshn. sem síðan var rædd lengi við 2. umr. málsins og nú erum við í 3. umr. og þá er komin fram fjórða útgáfa, eða viðbætur við þriðju útgáfu með þeim breytingum sem kynntar voru í morgun af formanni nefndarinnar, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem tjáði okkur að búið væri að breyta hlutfallstölunni 25 í 35% sem fyrirtæki sem ekki væri markaðsráðandi mætti eiga í sjónvarps- og útvarpsrekstri eða fjölmiðlum. Í öðru lagi væri búið að gera aðlögun þannig að útvarpsleyfin héldu gildi sínu og í þriðja lagi væri svo búið að heimila að framlengja þau útvarpsleyfi sem féllu úr gildi fyrir 1. júní 2006 til þess dags. Það eru þær breytingar sem verið er að ræða í málinu núna.

Málið er hér því í fjórðu útgáfu og því var að sjálfsögðu lýst yfir eftir að menn komu fram með fyrri brtt. að nú væri málið í þeim búningi að menn væru orðnir afar ánægðir með það, mjög sáttir, teldu málið afskaplega vel tækt til þess að fara gegnum Alþingi og þyrfti engrar lagfæringar við. Síðan settust forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., yfir málið og boðuðu svo breytingar sem voru kynntar hér í morgun og lýstu því jafnframt yfir að nú væri slík gleði í ríkisstjórninni, kossaflens og faðmlög, að aldrei hefði verið önnur eins sátt um nokkurt mál sem þeim hefði tekist að vinna saman og þeir væru nú nánari, þeir bræður, en nokkurn tímann fyrr og sætu uppi með hina miklu sátt.

Líta verður svo á að sá bardagi sem þeir hafa verið í hafi þjappað þeim það mikið saman að hæstv. forsrh. hefur lýst yfir mikilli gleði með samstarfið og telur að nú sé ríkisstjórnin orðin einvalalið sem standi algjörlega saman og hafi þjappast saman í þessum átökum og nú í fjórðu atrennu sé sáttin slík að ekki verði bætt um betur. Svo taka menn upp á því í borgarstjórn Reykjavíkur að hafa áhyggjur af málinu, koma algerlega í bakið á hæstv. utanrrh. og hann bara móðgast yfir því að borgarstjórnin skuli hafa einhverjar áhyggjur af því að e.t.v. sé verið að stofna í hættu atvinnu fólks í borginni og rekstri fyrirtækja sem hér eru. Hann orðaði það eitthvað eitthvað á þá leið í morgun eftir minni mínu, hæstv. forseti, að borgarstjórnin ynni sitt verk og þingmenn á hv. Alþingi ynnu sitt verk og um það þyrfti ekkert meira að segja. Slíkur er friðurinn á því ástríka heimili, ríkisstjórnarheimilinu, og slíkur er friðurinn innan Framsfl. svo dæmi sé tekið.

Stjórnarliðar kvörtuðu dálítið undan því, hæstv. forseti, að ræðurnar sem við fluttum við 2. umr. málsins sem tóku jú kannski frá klukkutíma og upp í rúma tvo tíma, væru ekki málefnalegar, menn væru ekki að fara yfir efni málsins og þetta væru ekki málefnalegar ræður heldur málþjóf.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það eru ekki mjög margir sem hafa fylgst betur með umræðunni en sá sem hér stendur, a.m.k. í þingsalnum, auðvitað geta menn fylgst með umræðunni annars staðar en þar, en ég heyrði ekki þær ómálefnalegu ræður sem hér voru fluttar. Mér fannst flestar ef ekki allar ræðurnar vera mjög málefnalegar. Menn röktu sig í gegnum ýmis efnisatriði frv. og veltu upp ýmsum spurningum sem ekki er leitað svara við í frv. Sá sem hér stendur tók t.d. fyrir í ræðu sinni sérstakan kafla varðandi nýja tækni og nýjan dreifingarmöguleika á fjölmiðalefni, hvar við værum með slíkt í umræðunni í sambandi við málið o.s.frv.

Auðvitað komu upp fjöldamörg atriði í umræðunni, sem ég tel vera mjög efnislega, en það virtist fara eitthvað í taugarnar á hv. stjórnarliðum hvernig við fórum í gegnum málið. Reynt hefur verið að tala eitthvað sérstaklega um þá þingmenn sem ekki hafa verið samstiga hinum fjórum skrefum ríkisstjórnarinnar í málinu. Í fyrsta lagi upprunaskrefi Davíðs Oddssonar þegar hann lagði málið upp í ríkisstjórninni og fréttaflutningi af því og svör sem við þurftum að gefa um það án þess að vita nákvæmlega hvað væri á ferðinni nema það sem fréttamenn fengu. Í öðru lagi þegar frv. var lagt fram, í þriðja lagi þegar brtt. komu og loks í fjórða lagi þegar við ræðum hinar miklu sáttatillögur sem hafa þjappað þeim félögum saman, forustumönnum ríkisstjórnarinnar, í slík faðmlög að við eigum sennilega eftir að upplifa það sem eftir er vordaga að þeir sitji hér hönd í hönd í sætum sínum, vegna þess að málið hafi þjappað þeim saman í slíkt bræðralag að annað eins fyrirfinnst sennilega ekki, nema við förum að fletta upp í Íslendingasögunum og kann þá að vera að við finnum slíkt bræðralag.

Ég gat þess sérstaklega, hæstv. forseti, í fyrri ræðu minni um málið við 1. umr. að ég ásamt þingmönnum Vinstri grænna hefði verið meðflutningsmaður að tillögu um að skoða starfsemi fjölmiðla í landinu, en flutningsmenn á þeirri tillögu voru ef ég man rétt einnig hv. þm. úr Framsfl. og Sjálfstfl., þar sem lagt var til að skipuð yrði pólitísk nefnd til að fara í gegnum málið til þess að reyna að skapa sátt um málsmeðferðina. Okkur var það algerlega ljóst sem töluðum fyrir tillögunni 2. desember að við vorum að fjalla um viðkvæmt mál í þjóðfélaginu, um mál sem snertir lýðræðið í landinu og snertir skoðanamyndun í landinu, að það hlyti að verða mjög viðkvæmt í umræðu og væri eðlilegt að um það um það væri reynt að mynda einhverja pólitíska samstöðu. Sá sem hér stendur lýsti því yfir í fyrri ræðu sinni 2. desember að við teldum mjög eftirsóknarvert að velta því upp og skoða til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til að treysta sjálfstæði og fjölbreytileika fjölmiðlareksturs hér á landi. Ég sagði einnig m.a., hæstv. forseti, ef ég vitna í ræðu mína frá 3. maí sl., með leyfi forseta:

,,En það er alls ekki sjálfgefið af efni tillögunnar`` --- þá er ég að vitna í tillöguna frá 2. desember --- ,,að hún sé beinlínis forskrift að lagasetningu. Hún er miklu frekar forskrift að því að skoða gaumgæfilega hvernig starfsemi fjölmiðla fer fram hér á landi og hvernig eignarhaldi á þeim er fyrir komið.``

Síðan sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég held að sú till. til þál. sem við ræðum nú um að skoða eignarhald og starfsemi fjölmiðla, hvernig því er varið í framtíðinni, sé af hinu góða og það sé ágætt fyrir okkur að fara í gegnum það. Ég tek það hins vegar fram, virðulegi forseti, að það er ekki sjálfkrafa ávísun á það að við setjum fram stíf eða ströng lög um þetta efni en vel kann þó að vera að það verði niðurstaðan.``

Þetta var efnislega það sem ég sagði um þessa umræðu og vék að við 1. umr. um málið. Ég sagði einnig að við vildum að vel yrði vandað til verksins og að það frv. sem þá var verið að ræða við 1. umr. væri ekki ásættanlegt og þyrfti nánari skoðunar við. Við töldum að það væri ekki skynsamlegt að leggja upp með frv. í þeim búningi sem það kom hér inn til 1. umr. og að skoða yrði alveg sérstaklega þegar verið væri að tala um aðila sem mættu eiga aðild að fyrirtækjum og við töldum að skoða þyrfti m.a. fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu, en töldum að það væri mjög óeðlilegt að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu mætti ekki eiga í fjölmiðlum.

[13:45]

Síðar í þeirri ræðu sagði ég eitthvað á þá leið, ætli það sé ekki best að ég vitni orðrétt í það, með leyfi forseta:

,,Varðandi útfærslu á þessum atriðum væri spurning hvort trappa mætti þetta niður`` --- og þá er ég að ræða um eignarhald fyrirtækja á markaði með ráðandi stöðu í fjölmiðlum --- ,,og á lengri tíma. Ég teldi miklu ásættanlegra að stór og öflug fyrirtæki mættu eiga allt að 30% í útvarpsfyrirtæki og að hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis væri 15% eða 10%.``

Þetta var það sem ég sagði efnislega og var þá að víkja að því að í fyrstu útgáfu frv. var algjörlega bannað að markaðsráðandi fyrirtæki mætti eiga í slíku fyrirtæki. Afstaða mín í málinu hefur því legið algjörlega skýr fyrir frá upphafi, að ég teldi að það kæmi til greina eftir vandlega skoðun að setja jafnvel einhvers konar lög um slíka starfsemi en það þyrfti hins vegar að skoða það vandlega og huga þyrfti sérstaklega að því m.a. að við erum að tala um atvinnufyrirtæki og ef sett eru sérstök lög um fjölmiðlafyrirtæki geta þau auðvitað haft áhrif á aðra atvinnustarfsemi í landinu og taka þarf sérstaklega tillit til þess. Hvers vegna á það að vera mjög takmarkandi fyrir aðila í öðrum rekstri að eiga í fjölmiðlafyrirtæki? Ég spyr enn þá og hef ekki fengið nein svör við því. Ég held að enginn hv. þm. hafi fengið nokkur skynsamleg svör við því, hvers vegna 5%. Hvaðan í ósköpunum datt sá vísdómur hér inn í skjöl? Hvaða rök hafa verið færð fyrir því? Eina sem ég hef séð var í einhverri blaðagrein, að mig minnir, þar sem vitnað er til þess að Íslandsbanki ætti 4,9% í Skjá 1 eða því fyrirtæki sem rekur Skjá 1 og það væri rétt að setja takmarkið við það að Íslandsbanki þyrfti ekki að breyta aðild sinni. Það var a.m.k. sagt í einhverjum fjölmiðli. Ég held að það hafi ekki verið sagt í þingsalnum, ekki af þeim sem við höfum verið að reyna að spyrja, þ.e. stjórnarliðunum. Þeir hafa nefnilega ekki fært nein rök fyrir þessum 5%. Ég get spurt á móti: Hvers vegna ekki 12% eins og notuð eru í íslenskum sjávarútvegi þegar verið er að takmarka eignaraðild stórfyrirtækja að aflaheimildum í sjávarútvegi? Og þykir eðlilegt að þar séu sett ákveðin mörk, þ.e. hversu mikið eitt fyrirtæki má eiga af heildaraflaheimildum á íslensku hafsvæði.

Mér finnst því, virðulegi forseti, að ég hafi ekki fengið nein svör við þeim tillögum eða þeim hugmyndum sem ég reifaði --- þetta voru nú frekar hugmyndir en að ég væri með beinar tillögur --- við upphaf umræðu málsins 3. maí sl. þar sem ég spurði hvers vegna markaðsráðandi fyrirtæki mættu ekki eiga saman 30% í fjölmiðlafyrirtæki. Hvers vegna má ekki eitt af þeim fyrirtækjum eiga allt að 15% o.s.frv.? Og hvers vegna er ekki reynt að búa til þá aðlögun í lagaferlið að trappa niður að því markmiði sem menn eru að setja? Hvers vegna setja menn bara tvö ár og þá skuli menn komnir niður í 5%?

Þegar við ræddum í kosningabaráttunni um breytingar í sjávarútvegi sagði hæstv. forsrh. að landið væri sett á annan endann ef menn voguðu sér að leggja til að fyrna aflaheimildir í sjávarútvegi um örfá prósent á ári og tækju til þess 5 eða allt að 15 ár. Það átti að setja allt gjörsamlega á hvolf. Menn héldu bara ekki vatni yfir þessum óábyrgu tillögum stjórnarandstöðunnar, að það mætti breyta einhverju á löngum tíma í atvinnurekstri í sjávarútvegi. Svo koma menn hér og tala um eina atvinnugrein sem snýr að einu fyrirtæki og koma með tillögu um það í upphafi að slíkt fyrirtæki megi ekki eiga eina krónu í fjölmiðlafyrirtæki. Það var síðan hækkað upp í 5% og það er svona kanínuhattadráttur, eins og þegar menn taka einhverja tölu upp úr hatti. Eða 2 milljarðarnir. Hvar voru sérstaklega færð rök fyrir því að miða við 2 milljarða en ekki einhverja aðra tölu?

Ég held að málinu hafi eingöngu verið hent inn til að svara þeirri gagnrýni sem við vorum með í upphafi umræðunnar við 1. umr., m.a. um það hvort ekki væri eðlilegt að fara öðruvísi í málin en lagt var upp með. Staðan eins og hún er núna í frv., annars vegar um 5% og hins vegar 2 milljarðana, svarar ekki þeim aðfinnslum sem sá sem hér stendur var m.a. með við málið í upphafi umræðunnar. Ég undra mig satt að segja á því hvers vegna menn eru enn með þessa fljótaskrift --- hæstv. dómsmrh., velkominn í salinn --- ég skil það bara ekki. Það hefur enginn komið með skynsamlega röksemdafærslu fyrir því hvað sé að fara á hliðina í landinu út af fjölmiðlarekstri á næstu fimm, sex mánuðum. Og hvers vegna ekki megi gefa þá aðlögun að vinna málið áfram skynsamlega og reyna að ná um það sátt og koma með það aftur í víðtækari og betri búningi á haustdögum. Hvað gerist á næstu fimm, sex mánuðum eins og málið er núna sem ekki næðist fram með lagasetningu þó að hún yrði sett í haust og menn gæfu sér góðan tíma til þess að vinna málið? Ég kem ekki auga á neitt. Það er hrein rökleysa hjá stjórnarliðum að halda því fram að málið sé svo í pottinn búið að menn haldi ekki vatni yfir því. (Dómsmrh.: Hverju?) Yfir þessu máli, hæstv. dómsmrh.

En þannig virðist það vera. Menn sjást ekki fyrir og nú erum við að ræða fjórðu útgáfu málsins. Og enn er málið í þeim búningi að menn telja, eins og hjá Norðurljósum, að það sé ekki ásættanlegt og að á það muni verða látið reyna fyrir dómstólum og á öðrum þeim stöðum þar sem menn telja að þeir geti varið rétt sinn.

Ég verð því að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna menn eru í þeim förum sem þeir eru í með málið. Ef við veltum aðeins fyrir okkur takmörkunum varðandi markaðsráðandi fyrirtæki, hvað sé svona hættulegt við það að markaðsráðandi fyrirtæki geti átt í fjölmiðli og setjum það í eitthvert samhengi. Til dæmis Sementsverksmiðjan. Ætli hún sé ekki markaðsráðandi í sementi? Hvers vegna má hún ekki eiga í fjölmiðli? Hvað er svona hættulegt við það, hæstv. forseti? Eða Áburðarverksmiðjan? Þeir sem dreifa áburði fyrir bændur. Hvað er svona hættulegt við það?

Það eru engin rök í þessu máli. Menn setja bara fram einhverjar línur og af því að það var hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sem ákvað að fara af stað með málið virðist enginn hafa bein í nefinu til að segja honum að málið sé slæmt eins og það er uppsett. Það er heila málið. Stjórnarliðar virðast ekki geta sagt forsrh. sínum satt um það að málið sé slæmt og það eigi að geyma það og vinna betur. Og það sem meira er, sennilega væri hægt að ná pólitískri samstöðu um málið ef það væri unnið skynsamlegra og gefinn til þess góður tími. Það virðist ekki vera að það sé neitt eftirsóknarvert, enda hafa hv. þingmenn stjórnarliða sagt í þinginu að það þurfi ekkert á þingmönnum stjórnarandstöðunnar að halda til þess að koma málinu í gegn, menn þurfi ekkert að hlusta á þau rök. Þannig er það, hæstv. forseti.

Þegar menn eru búnir að sitja lengi við völd gleyma þeir að það er lýðræði í landinu, eða á að vera það, og gefa sér ekki tíma til þess að leyfa lýðræðinu að virka. Jafnvel þó að sátt sé í boði velja menn slaginn. Ég tel, hæstv. forseti, og hef tekið það fram í öllum þeim ræðum sem ég hef flutt um málið að það hefði sennilega verið hægt að ná sátt um málið og málsmeðferðina ef menn hefðu lagt sig fram um að vilja sáttina, en þá þurfti málið náttúrlega að koma inn í öðrum búningi en þeim að það væri tilskipun forsrh. hvernig málið ætti að vera og því mætti ekki breyta í samráði við neinn nema hann og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson. Það væru þeir sem breyttu í málinu og aðrir stimpluðu það og kæmu með það út. Enda er það svo að jafnvel þingmenn í ríkisstjórnarflokkunum gátu ekki alveg tekið afstöðu til málsins við síðustu breytingu, m.a. hv. þm. Jónína Bjartmarz þar sem hún vissi ekki hvað í tillögunum stóð, enda var það tvíeykið, hæstv. forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem sömdu tillögurnar eins og allar aðrar tillögur í málinu. Þannig hefur það verið. Fjölmörgum spurningum í þessu máli hefur ekki verið svarað og ekki hefur verið rætt um nýja möguleika við að dreifa sjónvarpsefni. Hvar koma þeir inn í málið ef menn hætta að nota þessi útvarps- og sjónvarpsleyfi og fara að dreifa með öðrum hætti, með stafrænni dreifingu, gervitunglum eða nota vefmiðla?

Fjöldamargt í þessu máli er órætt, hæstv. forseti, og þyrfti miklu betri og markvissari umræðu til þess að fara með málið í gegn í góðum búningi. Síðan er sagt: Ef þið eruð ekki sammála okkur í ríkisstjórninni þá eruð þið í Baugsliðinu. Ég veit ekki til þess að sá sem hér stendur hafi skráð sig í neitt einasta lið, hvorki Baugslið né annað. Það eru ár og dagar síðan ég var í knattspyrnuliði, svo var ég einhvern tímann í stúku í gamla daga. Ég kannast ekki við að ég hafi skráð mig í neitt Baugslið. Ég hef hins vegar þá skoðun að það sé óeðlilegt að fara þannig í málið að setja eitt fyrirtæki nánast upp að vegg í því og að ekki sé gefin nein aðlögun fyrir það fyrirtæki, í þessu tilviki Norðurljós, til að trappa sig niður í eignaraðild ef um það væri samkomulag. En ég hafna því algjörlega að fara þurfi með eignaraðild í markaðsráðandi fyrirtækjum niður í 5%. Ég átta mig alls ekki á því að hægt sé að draga þá línu hér í þjóðfélaginu að öll markaðsráðandi fyrirtæki megi alls ekki eiga í fjölmiðlum. Hvers vegna mega fyrirtæki sem eru í sjónvarps- og útvarpsrekstri ekki eiga í dagblöðum? Það hafa ekki heldur verið færð nein sannfærandi rök fyrir því að mínu viti.

Það er fjöldamargt í málinu, hæstv. forseti, sem er bara ekki í þeim búningi að stjórnarandstaðan geti sætt sig við það. Þess vegna lítum við auðvitað svo á að verið sé að framkvæma hálfgerða flýtimeðferð á málinu, enda mun það ætlunin að klára það fyrir helgi og koma því í gegnum þingið. Þá hlýtur að verða ofboðsleg gleði á stjórnarheimilinu, eiginlega gleði sem fer fram úr þeim faðmlögum, kossum og ánægju sem lýst var við síðustu útgáfu málsins. Það hlýtur að verða mikil gleði og mikil samþjöppun á stjórnarheimilinu þegar málið nær loksins í gegn. Það er verst að þjóðin fylgir ekki með, hæstv. forseti. Þjóðinni er eiginlega alveg ofboðið í þessu máli og skilur ekki frekar en sá sem hér stendur hvað liggi svona á. Hvað er að fara á hliðina í þjóðfélaginu á næstu vikum og mánuðum út af fjölmiðlarekstri? Ég hef ekki komið auga á það, hæstv. forseti. Síðan er náttúrlega ýmislegt skondið að gerast í málinu. Ég var að líta yfir framhaldsnefndarálit minni hluta allshn. sem birtir m.a. umsögn meiri hluta hv. menntmn. sem fjallaði um málið og var að fjalla um það áður en sú breyting kom fram sem verið er að ræða núna. Meiri hluti hv. menntmn. segir í niðurlagi umsagnar sinnar, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn fagnar fram komnum breytingartillögum meiri hluta allsherjarnefndar við málið og telur að með samþykkt þeirra verði frekari breytinga ekki þörf.``

[14:00]

Meiri hlutinn knúði það fram að breytingartillögurnar voru samþykktar eftir 2. umr. og þá stöndum við uppi með það að meiri hluti menntamálanefndar hefur hafnað því að frekari breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Hvað á þá að halda um þær breytingartillögur, hæstv. forseti, sem kynntar voru nú í morgun? Á að skilja undirskriftir hv. þm. Gunnars Birgissonar, formanns menntamálanefndar, hv. þm. Birkis J. Jónssonar, hv. þm. Guðrúnar Ingu Ingólfsdóttur, hv. þm. Kjartans Ólafssonar og hv. þm. Þórarins E. Sveinssonar, svo að meiri hlutinn sé að hafna þeim breytingartillögum sem hér voru kynntar í morgun? Síðasta setningin í meirihlutaáliti menntamálanefndar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með fram komnum breytingartillögum meiri hluta allsherjarnefndar.``

Það er skjalfest hér. (ÖS: Það er hægt að trúa öllu upp á þetta fólk.) Hér tók meiri hluti menntamálanefndar það skýrlega fram eins og ég las að engra frekari breytinga væri þörf á málinu. Hér telja því fimm þingmenn stjórnarflokkanna þær breytingar sem núna var verið að koma með, faðmlagabreytingarnar sem eiga að leysa þetta mál, algerlega óþarfar, þær eigi ekkert erindi hér inn og að klára megi málið í þeim búningi sem það var. Þannig er það nú, hæstv. forseti. Ég hugsa að Davíð hafi ekkert vitað af þessu að þetta var skrifað svona, textinn.

Í umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson myndaði ásamt stjórnarandstöðuþingmönnunum meiri hluta í þessari nefnd, segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Minni hlutinn gerir ekki aðrar athugasemdir við frumvarpið og telur að þær breytingar sem allsherjarnefnd hefur lagt til að gerðar verði á frumvarpinu eftir að beðið var um þessa umsögn séu til að bæta frumvarpið hvað varðar áhrif þess á markaðinn og mælir með samþykkt þeirra.``

Fjórir hv. þingmenn skrifuðu undir þessa tillögu, hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Birgir Ármannsson, Dagný Jónsdóttir og Gunnar Birgisson. Þessir þingmenn eru sem sagt allir búnir að taka þá afstöðu sem hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir, að keyra á málið eins og það var þá. Velkominn í salinn, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Nú spyr ég, úr því að hæstv. ráðherra er kominn, hvort líta eigi svo á að undirskrift þessara hv. þingmanna stjórnarflokkanna undir álit sín, annars vegar úr menntamálanefnd og hins vegar úr efnahags- og viðskiptanefnd, þýði að umræddir níu þingmenn séu andvígir þeim breytingum sem hæstv. ráðherra kynnti að orðið hefði samkomulag um milli hans og hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Bjarni Benediktsson kynnti hér í morgun. Það væri fróðlegt að fá það upplýst miðað við þann texta sem skrifaður er í nefndarálitið. Ég held að ég verði að lesa setninguna fyrir hæstv. forsætisráðherra. Hún hljóðar svona, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn fagnar fram komnum breytingartillögum`` --- þá er ekki verið að tala um þessar síðustu --- ,,meiri hluta allsherjarnefndar við málið og telur að með samþykkt þeirra verði frekari breytinga ekki þörf.``

Þetta var sagt, hæstv. forsætisráðherra, og skrifað. (Gripið fram í.) Einhvers staðar sögðu menn, ef ég man rétt, hæstv. forsætisráðherra, í kosningabaráttunni að menn stæðu alltaf við orð sín og að orð skyldu standa þannig að nú er úr vöndu að ráða fyrir hæstv. forsætisráðherra hvað hann ætlar að gera við þessi orð og þennan texta.

Ég held ég þurfi ekki að hafa lengra mál, hæstv. forseti, um þetta. Ég ætla ekki að endurtaka stóran hluta af ræðum mínum sem ég hef flutt um þetta mál. Ég held að ég hafi farið mjög skýrum orðum um að ég tel að hægt hefði verið að ná sátt um þetta mál í upphafi. Ég er enn þeirrar skoðunar að ef málið hefði fengist í þann farveg að það hefði verið rætt milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvaða áherslur menn teldu að þyrftu að vera í þessu máli þá hefði mátt ná um það sátt með því að vinna það á lengri tíma.

Ég ætla að enda ræðu mína á því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað fer á hliðina í þessu máli á næstu fimm, sex mánuðum ef því yrði frestað og tekið fyrir á haustdögum?