Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 20:59:12 (8705)

2004-05-19 20:59:12# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[20:59]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Af yfirlestri mínum á þessum álitum og því sem ég hef heyrt til lögfræðinga í þessum efnum þá er niðurstaða langflestra sú að þeir treysta sér ekki til að fullyrða mjög afgerandi í þessu efnum. Þeir segja: Við treystum okkur ekki til að fullyrða að þetta standist algerlega stjórnarskrá, enda er það auðvitað þannig, eins og hæstv. utanrrh. vakti athygli á, að þannig er með mörg lög og menn greinir einfaldlega á um þetta.

Það eru ekki mjög margir lögfræðingar sem kveðið hafa upp úr um það, allra síst eftir að búið er að gera þær breytingar sem gerðar hafa verið, að þessi lög muni brjóta stjórnarskrána. Ég vek athygli á því að sá lögmaður sem menn hafa einna oftast vitnað til, prófessor Sigurður Líndal, vakti t.d. athygli á því að breytt hefði verið með viðunandi hætti því efnislega atriði sem hann hefði gert langmest að umræðuefni. Það styrkir mann enn frekar í þeirri trú, sem ég hafði bjargfasta fyrir, að þetta frv. sé fullkomlega í samræmi við stjórnarskrána og þess vegna er að mínu mati ekkert að vanbúnaði að samþykkja það.