Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:05:15 (8710)

2004-05-19 21:05:15# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:05]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Það kom á daginn að hv. þm. gat ekki svarað þessari einföldu spurningu minni. Ég vil víkja enn frekar að ræðu hv. þm. Ásgeirs Friðgeirssonar sem mér fannst mjög áhugaverð og í raun tímamótaræða í þeirri umræðu sem hefur verið um málið á Alþingi. Hv. þm. sagði m.a. að í tímaritinu Frjálsri verslun hefði komið fram að 90 fyrirtæki hér á landi högnuðust hvað mest í fyrra og á þeim lista, af þessum 90 fyrirtækjum, teljast 60 til markaðsráðandi fyrirtækja. Hin fyrirtækin 30 eru flest hver sjávarútvegsfyrirtæki. Með öðrum orðum, ef frv. hæstv. forsrh. nær fram að ganga eru líklegustu kaupendurnir að fyrirtækinu Norðurljósum sjávarútvegsfyrirtæki. Þau eru þau einu sem virðast hafa burði til að fara inn og þau virðast vera þau einu sem hafa ekki hömlur gegn því að fara þarna inn.

Því spyr ég: Telur hv. þm. þetta vænlegan kost fyrir fjölmiðlun í landinu að sjávarútvegsfyrirtæki sem ráða yfir sameiginlegri auðlind þjóðarinnar yfirtaki íslenska fjölmiðla?