2004-05-22 00:19:51# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[24:19]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mikilvægt mál sem valdið hefur meiri titringi í þjóðfélaginu en nokkurt annað mál sem hér hefur komið upp á undanförnum árum. Nú dregur að lokum umræðunnar. Þá þurfa menn auðvitað að sýna málinu þá virðingu að ljúka umræðunni á Alþingi, svara spurningum og gagnrýni sem sett hefur verið fram. Ég tel engan veginn hægt að segja að svo hafi verið gert með myndarlegum brag. Í 3. umr. hafa talað þrír sjálfstæðismenn en enginn framsóknarmaður. Ég hef ekki fengið fullnægjandi svör við spurningum sem ég hef lagt fram. Mér finnst tími kominn til þess, undir lok umræðunnar, að menn svari þeim spurningum sem hafa verið lagðar fram og ljúki þar með umfjöllun málsins með sæmilega myndarlegum hætti.

Fáir hafa verið í gáttum þingsalarins í dag og enn færri í salnum. Ráðherrar hafa verið afar sjaldséðir og vart að ég muni eftir nokkrum þeirra í dag. Formaður allshn., hv. þm., hefur ekki verið til staðar til að taka þátt í umræðunni. Það hefur verið margbent á að það er enginn bragur á að ljúka umræðunni með þeim hætti. Ég tel kominn tíma til að hæstv. forseti velti því fyrir sér hvort það væri meiri reisn yfir Alþingi við lokin á umfjöllun á slíku máli að fresta því og klára hana á morgun þegar hæstv. ráðherrar og formaður allshn. hafa sofið úr sér þá þreytu sem virðist hafa safnast upp á undanförnum dögum. Allir hafa fundið fyrir þreytu í svo langri umræðu og veru í þinghúsinu. Þreytan virðist þó hafa sótt meira á hv. stjórnarliða en stjórnarandstæðinga því að þeir eru a.m.k. miklu fleiri til staðar.

Ég ætla ekki að telja upp þær spurningar í umræðum um fundarstjórn forseta sem ég hef lagt fram. Ég hugðist fara yfir þær í þeirri ræðu sem ég á eftir. Ég vonast sannarlega til að þegar ég held hana verði menn til staðar til að svara þeim spurningum. Ég held að það hljóti að vera hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu og sátt um að menn ljúki umræðunni með því að hér mæti í þinghúsið þeir sem helst hafa viljað verja þetta mál og einnig einhverjir sem ekki hafa lagt í það, t.d. úr Framsfl.