2004-05-22 01:10:03# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:10]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að leita í náðarskjól virðulegs forseta Alþingis og okkar allra. Mig minnir að ég hafi greitt honum atkvæði mitt fyrir ári þegar við kusum forseta þingsins. Ég lít á hann sem skjól mitt í lífinu, þær klukkustundir sem þingfundur stendur yfir. Alltaf þegar koma upp vafamál sé ég þann kost langvænstan að leita í faðm hæstv. forseta. Ég vildi fara þess á leit við hann að hann frestaði þingfundi til fyrramáls.

Ég hef ítrekað gert grein fyrir því að mér er dauðans alvara með að ná sambandi við forustu Framsfl. Ég óska eftir því að þingið sendi hv. varaformanni flokksins fax þar sem honum verði gerð grein fyrir þeim knýjandi spurningum sem ég hef til forustu Framsfl. Eins ætlaði ég að óska eftir því við virðulegan forseta að hann beiti sér fyrir því næstu mínúturnar að ná í hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur, sem er ritari Framsfl. Hún er þar með, held ég, þriðji æðsti fulltrúinn í regluverki Framsfl. Ég gæti alveg sætt mig við að hún kæmi og greiddi úr vanda mínum. Ég hef alltaf litið til Framsfl. í von um að þar leyndist vísir af pólitísku réttlæti og sanngirni, virðulegi forseti.

Ég ætlaði að eiga orðastað við forustu flokksins og á mjög erfitt með að halda áfram málefnalegum og góðum umræðum án þess að einhver þeirra sé viðstaddur. Ég á erfitt með að hefja seinni ræðu mína við 3. umr. um þetta dæmalausa frv. sem ætlað er að brjóta fyrirtækið Norðurljós á bak aftur og hefta tjáningarfrelsi í landinu. Ég ætlaði að spyrja forustu Framsfl. sérstaklega að því hvort hún treysti sér til að standa að því að hefta svo og reisa tjáningarfrelsi Íslendinga þvílíkar skorður. Vill forusta Framsfl. vega svo hressilega að prentfrelsinu í landinu? Ég óska því eftir því við virðulegan forseta að hann beiti sér fyrir því á næstu mínútum að fá hæstv. ritara Framsfl., Siv Friðleifsdóttur, í hús þannig að ég geti átt orðastað við hana úr ræðustól þingsins á bilinu 1.15 til kl. 9, þegar væntanlega verður gert fundarhlé í klukkutíma þannig að landbn. geti komið saman. Hún hefur 8 klukkustundir þannig að ég óska eftir því að forseti hafi samband við hæstv. aðalritarann og biðji hana að ræða við mig.