2004-05-22 01:16:37# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:16]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst lítið ganga hjá okkur þingmönnum að ná árangri með þeim ræðum sem við höldum. Við höfum beðið um að ráðherrar séu hér viðstaddir. Sá eini sem nú situr í salnum er hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. Hann nótar að vísu niður allt sem spurt er um en svarar ekki neinu. Það er svolítið merkilegt að upplifa þetta og mér finnst eins og maður sitji við þæfisteininn, eins og sagt var í gamla daga. Það þófnar að vísu hjá okkur en það gerist ekkert meira.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst lítið ganga hjá hæstv. forseta að láta málum vinda fram á hv. Alþingi. Ég tel að það sé að sumu leyti vegna þess að hæstv. forseti hefur ekki lag á að ná fram skilvirkni í vinnubrögðum á þinginu. Slíkt næst með því að verklagið sé þannig að það gangi á verkefnin. Þingmenn hafa óskað eftir því að fá svör við spurningum sínum og alvöruumræður um þau álitamál og vankanta á frv. en ekkert gengur. Verjendur málsins eru ekki tilbúnir að taka til varna og útskýra það sem hér er um spurt.

Ég lýsti m.a. spurningum sem ég vildi fá svör við. Aðrir þingmenn hafa lýst sínum spurningum. Ég veit að hæstv. forseti hefur skilning á því að það þarf að fá svör við þeim spurningum. Ég hef hlustað á ræðu hæstv. forseta. Ég greindi inntak hennar þannig að setja þyrfti lög vegna þess að þeir fjölmiðlar sem helst yrðu fyrir barðinu á lögunum væru býsna slæmir og fjölluðu með ranglátum hætti um mál. Ég verð að segja að það er eitthvað sem við þurfum að hafa töluvert langa umræðu um, ef það er niðurstaðan við lok þessarar umræðu að setja eigi lög á Alþingi sem beinist að því að sjá til þess að málefnaleg umræða í fjölmiðlum, sem menn kjósa að setja fram hver með sínum hætti, komist ekki til skila. Ég ætla að halda því fram að það sé andlýðræðislegt sem hér fer fram. Ég vil að menn mæti og séu til staðar til að svara fyrir hugmyndir sínar um lagasetninguna.