2004-05-22 01:31:59# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:31]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa vakið máls á þeirri undarlegu fundarstjórn sem birtist í því að hér eru málin rædd kl. hálftvö að nóttu þegar ekkert knýr á um það. Samkvæmt því sem liggur fyrir í málinu höfum við upp undir fjóra mánuði sem áætlað er að þingið sitji ekki sem gefur nægan tíma til að skoða málið og því er ástæðulaust að sitja yfir því fram á nótt.

Ég vek athygli á því að stjórn þessa þingfundar er alfarið á ábyrgð hæstv. forseta. Hann getur frestað fundi eða haldið áfram fundi. Það er ákvörðun forseta. Það að halda áfram fundi á þessum tíma er dýrt. Það er rándýrt. Starfsfólk þarf að sitja áfram og það er ríkissjóður sem greiðir fyrir það. En allt þetta byggir á ákvörðun forseta um að funda inn í nóttina. Ég vildi vekja athygli hæstv. forseta á 9. gr. þingskapa. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Forseti ber ábyrgð á rekstri Alþingis.``

Hæstv. forseti er með þessu stjórnleysi, að funda inn í nóttina og eyða almannafé langt umfram það sem nauðsyn krefur. Ég tel mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að vinnulagið er alfarið á ábyrgð forseta sem stjórnar fundi. Hann ákveður dagskrár, ákveður hvenær fundi er frestað og með ákvörðunum sínum, virðulegi forseti, um að funda inn í nóttina er að mínu viti farið illa með almannafé.