2004-05-22 01:40:43# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:40]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil rifja það upp fyrir þeim ágæta forseta sem nú situr í stóli fyrir aftan mig, hæstv. forseta Halldóri Blöndal, að þegar við sátum saman í ríkisstjórn fyrir nokkrum árum, síðla á síðustu öld, bar það einu sinni við að í mikilli skyndingu þurfti að sækja mig á ríkisstjórnarfund. Af því að ekki náðist í mig var leitað atbeina lögreglunnar og hún fann mig í sumarbústað á Suðurlandi og kom mér til fundar með miklum hraði.

Ég vil víkja því í vinsemdarskyni að hæstv. forseta að ef það eru einhver vandkvæði á því að hafa uppi á hæstv. ráðherrum þá mætti kannski grípa til sömu ráða og þá voru notuð til að finna þáv. umhvrh. og koma honum til fundar við ríkisstjórnina. Þetta segi ég í fullri vinsemd við hæstv. forseta.

Nú er það svo að hæstv. forseti hefur skipulagt fundahald með þeim hætti að mörg okkar hófu störf fyrir Alþingi í nefndum kl. 8.15 í morgun. Einnig hann hefur hagað því svo, a.m.k. er það með blessun hans, að við hefjum aftur störf í nefndum kl. 9, ekki eftir átta og hálfan tíma eins og við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði heldur sjö og hálfan. Það má kannski virða hv. þm. það til vorkunnar, sem ber að vísu þingæskuna nokkuð vel, að hann er kannski vansvefta eins og margir í þessum sölum og hefur því ekki lagt alveg rétt saman, eða dregið frá eftir atvikum.

Í þriðja lagi, herra forseti, virðist forseti hins vegar ekki getað skipulagt þennan fund með þeim hætti að við vitum hvenær honum lýkur. Er það ætlun hæstv. forseta að halda fundi áfram þangað til nefndarfundir hefjast á morgun? Er það ósanngjarnt af mér að spyrja fyrir hönd þeirra þingmanna sem hér eru, 10--15 talsins, hvenær hann hyggst ljúka fundi? Sumir þingmanna okkar í Samf. eiga töluvert langt heim að sækja. Hv. þm. Jón Gunnarsson býr suður með sjó og ekki ætlar hæstv. forseti að senda hann vansvefta út í nóttina til að aka suður á nes og síðan aftur til baka. Hann á að vera mættur árla líka til nefndarfundar. Ég vil því í fullri vinsemd spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi enga hugmynd um hvenær hann hyggst ljúka fundi. Það er mjög mikið sem sumir okkar eiga eftir að ræða. Formaður Samf. hefur t.d. ekki haldið ræðu í þessari umræðu og hefur margt til þessara mála að leggja. Hæstv. forseti veit af hverju formaður Samf. hefur ekki haldið ræðu fyrr, en hann mun gera það síðar á þessari nóttu.

(Forseti (HBl): Það er að vísu ekki rétt.)