2004-05-22 01:43:58# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:43]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér þykir í óefni komið með fundarstjórn hæstv. forseta. Það gengur hvorki né rekur. Hæstv. forseti ætti að huga að því að brjóta odd af oflæti sínu og velta fyrir sér þeim möguleikum sem eru í stöðunni. Hinn fyrsti kann að vera að gera hlé á fundinum og ræða við menn um hvernig hægt væri að koma umræðunni af stað. Annar kostur væri að ljúka þessum fundi núna. Hinn þriðji væri að sjá a.m.k. til þess að hingað komi þeir sem leggja fram málið og geta svarað ræðum sem hér hafa verið haldnar og spurningum sem hafa verið lagðar fram.

Mér finnst að hæstv. forseta ætti ekki að vera það erfiðara, að brjóta odd af oflæti sínu, en hæstv. forsrh. sem lagði í ferð að Bessastöðum fyrir ekki löngu til að bæta fyrir mistök sín og skrifaði undir skjal sem laut að því að láta í framtíðinni umboðsmann Alþingis í friði. Hann skrifaði kannski grátandi undir það skjal en mér finnst að hæstv. forseta sé ekki vant að brjóta odd af oflæti sínu, úr því að hæstv. forsrh. hefur lagt á sig þá hluti sem ég var að nefna. Ég held að fundum mundi vinda mun betur fram ef hæstv. forseti tæki á sig rögg og sæi til þess að orðið yrði við kröfum sem hér hafa verið settar fram.

Hingað ætti í fyrsta lagi að koma hv. formaður allshn. og ráðherrar líka, til að ljúka þessari umræðu með myndarbrag. Stjórnarliðið gæti þannig sem slíkt a.m.k. staðið í lappirnar við að verja þennan vonda málstað til enda í umræðunni. Það er eitthvað æðilangt frá því. Mig rekur ekki minni til að neinn þingmaður stjórnarliðsins hafi talað í dag nema hv. þm. Gunnar Birgisson snemma í kvöld. Örfáir hafa komið í gættir en sjaldnast að nokkur hafi setið í þessum sal. Engin svör fást við spurningum þingmanna. Þetta er ekki verklag sem skilar miklu. Ég legg það eindregið til að hæstv. forseti taki sér hæstv. forsrh. til fyrirmyndar og brjóti odd af oflæti sínu.