2004-05-22 01:50:03# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[25:50]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þá tíð sem ég hef setið á þingi og hæstv. forseti hefur gegnt starfi hæstv. forseta á þingi, þá höfum við oft og tíðum upplifað fundarstjórn sem kallað hefur á að hún yrði rædd sérstaklega.

Það ber talsvert að nýrra við nú. Ég man a.m.k. ekki til þess að taktík hæstv. forseta hafi verið sú að halda því leyndu fyrir þingmönnum og starfsfólki þingsins hversu lengi ætti að halda störfum þingsins áfram. Ég beini því þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta og óskað eftir að hann svari henni: Hvaða markmiðum telur hæstv. forseti sig ná með því að halda leyndu, fyrir starfsfólki þingsins og þingmönnum sem hér starfa, hve lengi halda eigi áfram fundinum?

Virðulegi forseti. Þetta glott, þ.e. að hæstv. forseti skuli ekki svara, verður varla túlkað öðruvísi en svo að þar sé einhver sálrænn hernaður í gangi sem hæstv. forseti reynir að beita þingmenn og starfsfólk þingsins, að halda því leyndu hversu lengi þingfundur skuli standa. Það er deginum ljósara, virðulegi forseti, að forseta vefst algerlega tunga um tönn við að útskýra markmiðið með því og hvaða árangur náist með þeirri aðferðafræði. Hvaða stjórnunartækni er þetta sem beinist að því að halda leyndu fyrir starfsfólki þingsins og hv. þm. hve lengi eigi að vinna?

Þetta er, virðulegi forseti, með hreinum ólíkindum. Ég lýsi ábyrgðinni alfarið á hendur hæstv. forseta, á þeim kostnaði og þeirri tímaeyðslu sem fer í þetta. Hæstv. forseti verður alfarið að bera ábyrgð á þeim gjörðum sínum.